Japanir smíða mikið af bílum í Bandaríkjunum

Frá samsetningarsmiðju Honda í Lincoln í Alabamaríki.
Frá samsetningarsmiðju Honda í Lincoln í Alabamaríki.

Japönsk bílafyrirtæki hafa aukið fjárfestingar í bílsmiðjum í Bandaríkjunum og smíða þar stóran skerf heildar framleiðslu sinnar.

Þannig nam heildarsmíði japanskra bílsmiða í Bandaríkjunum rúmlega 3,6 milljónum bíla í fyrra, sem var met. Var þar um að ræða 10% aukningu frá árinu áður, 2012.

Með vaxandi smíði jukust kaup japönsku fyrirtækjanna á íhlutum sem framleiddir voru af bandarískum íhlutasmiðum. Mun þar hafa verið um viðskipti að ræða upp á 57 milljarða dollara, sem var 11% aukning frá árinu áður.

Um það bil 94% íhluta í Hondabílum sem settir eru saman í Bandaríkjunum eru norður-amerískir, að sögn greiningafyrirtækisins Bookbinder said. Þá greinir Nissan frá því að um 76% íhluta í bílum sem það fyrirtæki setur saman í Bandaríkjunum séu keyptir af framleiðendum þar í landi. Í tilviki Toyota er hlutfallið 71%.

Japönsku bílsmiðirnir settu einnig met sem snýst um hvað hátt hlutfall af seldum bílum á bandarískum markaði voru smíðaðir í Norður-Ameríku. Voru 71% bíla sem þeir seldu í fyrra smíðuð í þeim heimshluta og hafði hækkað frá árinu áður er það var 70%, sem einnig var met. Segir fyrrnefnt Bookbinder að búast megi við að hlutfallið hækki enn frekar því bílaframleiðendur hafi lagt vaxandi áherslu á að smíða bíla á þeim markaði sem þeir eru seldir á.

Allt þykir stefna í að seldar verði 16,4 milljónir bíla í Bandaríkjunum í ár, að sögn greiningafyrirtækisins IHS Automotive. Yrði það besta söluárið frá 2006 er 16,5 milljónir bíla voru seldar þar í landi. Japönsk fyrirtæki á borð við Honda og Toyota hafa brugðist við vaxandi eftirspurn með því að auka bílsmíði sína í Bandaríkjunum og Kanada. Með því að setja bíla saman þar sparast tollar, flutningskostnaður og gjaldeyrisáhætta.

mbl.is