Mazda endurlífgar Wankel-hreyfilinn

Mazda er sagt vera að hanna arftaka RX-8 bílsins.
Mazda er sagt vera að hanna arftaka RX-8 bílsins.

Mazda hefur verið að þróa arftaka RX-8 bílsins og verður hann búinn hinum fræga Wankel-hreyfli.

Þróunarferlið tekur sinn tíma en heimildir herma að hann verði að líkindum kynntur sem hugmyndabíll árið 2017 og fari síðan ekki í fjöldaframleiðslu fyrr en árið 2020.

Hermt er að arftakinn gangi þegar undir vinnuheitinu RX-9 og að hann verði boðinn sem tengiltvinnbíll. Með því móti megi vinna upp ókosti Wankel-hreyfilsins.

Vél þessi var einkennandi fyrir Mazda seint á sjöunda áratugnum og snemma á þeim áttunda. Gaf bílsmiðurinn RX-8 bílinn upp á bátinn og hætti smíði hans árið 2011, aðeins átta árum eftir að honum var hleypt af stokkum. Höfðu þá verið smíðuð og seld 167.000 eintök af bílnum.

Í millitíðinni hlaut Mazda RX-8 hverja viðurkenninguna af fætur annarri, eða rúmleag 50 talsins. Þar á meðal var hann valinn bíll ársins í Japan 2003 og í Bretlandi og Singapúr 2004. Ástralska blaðið Wheels valdi hann sömuleiðis bíl ársins 2003. Þá var renesisvélin í honum, Wankelhreyflillinn, valin vél ársins 2003. Einnig var RX-8 valinn sportbíll ársins 2004 í Bandaríkjunum og loks var hann á lista tímaritsins Car and Driver yfir 10 bestu bíla áranna 2004, 2005 og 2006.

mbl.is