Porschestjóri segir Panamera ekki fallegan

Porsche Panamera Turbo S er afar sprækur bíll.
Porsche Panamera Turbo S er afar sprækur bíll.

Margir urðu til að gagnrýna Porsche á sínum tíma fyrir að hefja jeppasmíði. Sögðu það vera á kostnað árunnar sem 911-bílarnir höfðu skapað og efuðust um að vel myndi fara. Viðtökur Cayenne-jeppans hafa hins vegar verið einstaklega góðar og því hafa þessir sömu aðilar orðið að éta hatt sinn.

Í tilviki Panamera-bílsins hefur dæmið snúist við. Þótt sá bíll sé í grunninn ekki ljótur hefur margt bílablaðið fundið að honum og sagt hönnun hans afbrigðilega frábrugðna 911-hefðinni. Engu að síður hefur Porsche trú á bílnum og áformar að koma með aðra kynslóð hans á markað innan ekki svo margra ára.

Í samtali við tímaritið Motoring í Ástralíu gengst forstjórinn Matthias Müller við því að mistök hafi verið gerð við hönnun Panamera. Beðin að útskýra það nánar sagði hann að hönnun innra rýmisins og ytra útlits hefðu getað verið betur heppnuð.  

Müller segir að örlög Panamera hafi verið svipuð og Cayenne; gagnrýndur mikið en í kjölfarið hafi bíllinn rokselst. Allt frá því Panamera var kynntur til sögunnar 2009 hefur hann verið meðal söluhæstu bíla Porsche. Vegna þessa er ný kynslóð í undirbúningi og er hennar að vænta kringum 2017. Segir Müller að hönnuninni verði ekki bylt, heldur framþróuð frá núverandi bíl.

Það má segja Panamera Turbo-bílnum til hróss, að hann kemst úr kyrrstöðu í 100 km ferð á aðeins 3,7 sekúndum.    

mbl.is