Laufið hraðskreiðast aftur á bak!

Rafbíl má aka jafnhratt aftur á bak og áfram. Hér …
Rafbíl má aka jafnhratt aftur á bak og áfram. Hér er Nissan Leaf metbíllinn á ferð á hraðahátíðinni í Goodwood. Hann reyndist hraðskreiðastur.

Nissan Leaf hefur af óvenjulegu meti að státa, hann er hraðskreiðasti bíll heims – aftur á bak. Metið setti áhættuökumaður á hraðahátíðinni í Goodwood í Englandi.

Rafbílatækni er ekki svo ýkja flókin. Rafgeymir er tengdur rafmótor gegnum rafeindastýringu sem kemur einnig á sambandi mótorsins og hjólanna. Ekki þarf gírkassa því ólíkt bensín- og dísilvélum skilar rafmótor fullu torki, snúningsmætti, á öllu snúningssviðinu. Bara að stíga á aflgjöfina og bíllinn sækir strax á hámarks ferð.

Rafbílar gætu í sjálfu sér ekið jafnhratt aftur á bak sem áfram, en þar sem býsna erfitt yrði að stýra bíl á 150 km hraða með framhjólum sem þá sneru aftur hafa framleiðendur rafbíla takmarkað í rafeindastýringunni hversu hratt verður bakkað.

Á hátíð hraðans í Goodwood ákvað Nissan að aftengja stýringartakmörkin í þágu mettilraunar áhættuökumannsins Terry Grant, sem fékk það verkefni að reyna að setja heimsmet á rafbílnum Leaf í því að bakka eina enska mílu, 1.609 metra, upp fræga kappakstursbrekku í Goodwood. Grant hafði unnið sér það til frægðar árið áður að aka Nissan Juke upp brekkuna, sem er mjög hlykkjótt.

Metið virtist honum ekki ýkja erfitt því hann byrjaði á því að slá það á föstudegi. Reyndi síðan aftur daginn eftir og þriðja sinni á sunnudegi hátíðarinnar og bætti metið báða dagana. Lokatíminn á þriðja degi var 1:37,02 mínútur, eða sem svarar 88,5 km/klst. meðalhraða.

„Á stundum var ég ekki viss um hvort ég væri að koma eða fara,“ sagði Grant í léttum tón. „En þökk sé lágum þyngdarpunkti Leaf – rafgeymarnir eru hluti af bílgólfinu – þá er bíllinn einstaklega stöðugur á veginum, alveg sama í hvaða átt honum er ekið. Hið eina sem ég get kvartað yfir er lítilsháttar hálsrígur sem ég fékk af því að þurfa alltaf að horfa um öxl,“ bætti hann við. Met hans var skráð í Heimsmetabók Guinness og er þar enn, að því er best er vitað.

agas@mbl.is

Grant æfir sig á herflugvelli áður en hann lagði til …
Grant æfir sig á herflugvelli áður en hann lagði til atlögu við metið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: