Nýr Passat í febrúar

Myndarlegur VW Passat GTE á bílasýningunni sem nýlokið er í …
Myndarlegur VW Passat GTE á bílasýningunni sem nýlokið er í París. mbl.is/afp

Áttunda kynslóð VW Passat er nú kynnt fyrir heimspressunni á eyjunni Sardiníu í Miðjarðarhafinu. Blaðamaður Morgunblaðsins var á staðnum og hafði bílinn til reynsluaksturs en nánar verður fjallað um hann á bílasíðum blaðsins síðar.

Tveir seldir á hverri mínútu

VW Group seldi 1,1 milljón Passat bíla á heimsvísu í fyrra sem þýðir að tveir slíkir fara í hendur eigenda sinna á hverri mínútu. Alls hafa 22 milljónir eintaka verið seldar af þessum vinsæla bíl síðan framleiðsla á honum hófst en hann er mikilvægur á íslenskum markaði að sögn Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu. „Við eigum von á fyrstu bílunum í febrúar og munum fara að geta tekið við pöntunum strax um áramót. Hann verður frá byrjun fáanlegur með öllum níu vélunum sem í boði eru, sem stallbakur eða langbakur, framhjóladrifinn eða fjórhjóladrifinn. Ég get ekki staðfest hvað hann mun kosta ennþá en hann mun verða mjög nálægt gamla bílnum í verði.“

Breyttur og hlaðinn búnaði

Bíllinn er talsvert mikið breyttur frá fyrri kynslóð og til að mynda er hjólhaf hans mun meira sem eykur innanrými bílsins. Einnig er hann allt að 85 kílóum léttari en áður með endurhönnuðum undirvagni og yfirbyggingu, sem og nýjum vélum sem létta bílinn mikið.

„Bíllinn er hlaðinn tækninýjungum og nýjum öryggisbúnaði eins og stafrænu mælaborði, búnaði sem aðstoðar ökumann að bakka með tengivagn og árekstrarvara með 360 gráðu myndavél,“ sagði Friðbert ennfremur.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: