Sjáum bílana í svart-hvítu

Ef hægt er að tala um tískulitina í ár eru …
Ef hægt er að tala um tískulitina í ár eru það annars vegar hvítir bílar sem eru nú 22,6% seldra bíla og svo rauður sem hefur aukist um helming frá 2011, þegar þeir voru 5,9% seldra bíla en eru 11,2% í ár. mbl.is/Malín Brand

Það verður seint sagt um Íslendinga að þeir séu litaglaðir þegar kemur að kaupum á nýjum bílum. Litapallettan minnir einna helst á daga svarthvíta sjónvarpsins þar sem gráir, hvítir og svartir litir eru allsráðandi.

Sumir litir verða þó vinsælli en aðrir eins og til dæmis hvítur, sem er næstvinsælasti litur á nýjum bílum í dag, á eftir gráum. Alls voru 22,6% bíla sem seldir hafa verið á þessu ári hvít, sem er aukning frá síðasta ári. Reyndar hefur hvítur litur sótt stöðugt á síðan árið 2007, en þá voru rúm 7% bíla hvít. Frá árinu 2004 hefur hlutfall grárra bíla farið úr 42% í tæp 52% árið 2011. Svartur litur var vinsælastur á uppgangsárunum fyrir hrun. Til að mynda var svartur vinsæll árið 2007 þegar hlutfall svartra bíla af nýjum seldum bílum var 16,2%, en er 6,7% í ár.

Rauður tískuliturinn

Rauðir og brúnir litir eru vinsælastir þegar kemur að litum utan gráskalans. Brúnir bílar eru 11,2% seldra bíla í ár og hefur hlutfall þeirra staðið nokkuð í stað. Rauðir bílar eru hins vegar að komast í tísku og eru 11,3% seldra bíla en voru 5,9% árið 2011. Öfugt er farið með bláa litinn sem var vinsæll 2004 með 14,2% hlutfall, en er aðeins 3,2% seldra bíla á þessu ári. Gulir og grænir bílar komast varla á blað og nær gulur litur aldrei einu prósenti á síðustu tíu árum. Grænir bílar hafa rokkað aðeins í vinsældum, seldust best 2004 þegar þeir voru 6% bíla en eru aðeins 0,8% í ár. Bleika bíla má svo telja á fingrum annarrar handar flestöll árin; eru aðeins þrír í ár en voru flestir sex 2011 og 2012.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: