Vígja nýja mótorsmiðju

Jaguar Land Rover vígði í dag nýja mótorsmiðju sem ber nafnið Ingenium í Wolverhampton en vígsluna framkvæmdi engin önnur en Elísabet drottning.

Fyrstu vélarnar koma af færiböndum í janúar næstkomandi og verða brúkaðar í Jaguar XE bílnum. Þar verður um að ræða 2,0 lítra dísilvél sem verður í tveimur útgáfum, 161 og 178 hestafla. Síðar mun bætast við 3,0 lítra sex strokka dísil- og bensínvélar.

Kynslóð er liðin frá því Jaguar Land Rover smíðaði sína eigin vél frá grunni en breski bílsmiðurinn hefur í staðinn reitt sig á aðra byrgja til að sjá honum fyrir vélum.

Hinar nýju Ingenium vélar munu knýja Discovery Sport auk hins nýja Jaguar XE - og aðra bíla JLR þegar fram líða stundir.

Í vélasmiðjunni nýju munu starfa 1.400 manns og starfsemin þar skapar önnur 5.500 afleidd störf hjá íhlutasmiðjum. Smiðjan þekur 100.000 fermetra lands og munu sólrafhlöður á þaki hennar sjá smiðjunni fyrir um 30% orkuþarfar sinnar.

Úr mótorsmiðjunni nýju en þar munu starfa 1.400 manns.
Úr mótorsmiðjunni nýju en þar munu starfa 1.400 manns.
mbl.is