Auka sparneytnina um 25%

Hyundai og Kia ætla að stórlækka eldsneytisnotkun bíla sinna.
Hyundai og Kia ætla að stórlækka eldsneytisnotkun bíla sinna.

Kóresku bílsmiðirnir Hyundai og Kia hafa heitið því að smíðisbílar þeirra verði 25% sparneytnari áður en þriðji áratugur aldarinnar gengur í garð.

Með því móti ætla fyrirtækin að mæta strangari kröfum um losun gróðurhúsalofts frá bifreiðum á heimamarkaði símnum og í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þetta heit er gefið beint í kjölfar frétta þess efnis að Hyundai og Kia hafi fallist á að borga sektir að upphæð allt að 350 milljónir dollara fyrir að skrökva til um eldsneytisnotkun bíla sinna í Bandaríkjunum. Sömuleiðis glíma bílsmiðirnir tveir við vaxandi samkeppni á heimamarkaði frá innfluttum bílamerkjum, ekki síst dísilbílum sem eiga vaxandi vinsældum að fagna í Suður-Kóreu. Í þessum heitbindingum felst að Hyundai og Kia þurfa að þróa og smíða nýja kynslóð af vélum og gírkössum, ná niður eigin þyngd nokkurra bílamódela sinna og bjóða upp á aukið úrval vistvænni bíla.

Fyrirtækin tvö deila flestum helstu íhlutum smíðisbíla sinna en þau segja að nýjar vélar muni leysa um 70% núverandi bensín- og dísilvélar af hólmi. Í auknum mæli yrðu forþjöppur brúkaðar í bensínvélum og nýjar skiptingar yrðu þróaðar til að bæta nýjar vélar. Loks yrði brúkað hert stál frá dótturfélaginu Hyundai Steel til að létta bílamódel framtíðarinnar miðað við núverandi bíla.

Bandarísk umhverfisyfirvöld uppgötvuðu árið 2012 að bílar Hyundai og Kia voru ekki eins sparneytnir og framleiðendurnir héldu fram. Rannsókn var ýtt úr vör sem leiddi meðal annars í ljós, að samkvæmt þeirra eigin prófunaraðferðum neyttu bílarnir mun meira eldsneytis en gefið hafði verið upp. Á endanum játuðu Hyundai og Kia að hafa hagrætt niðurstöðum prófana.

Sviksemi þessi við neytendur var tekin alvarlega en í Bandaríkjunum áttu í hlut um 1,2 milljónir bíla af árgerðunum 2012 og 2013 sem seldar voru þar í landi. Nemur sektin rúmlega 12 milljörðum króna.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: