Ómar í sundfatnaði í gegnum þvottastöð

Ómar fór í gegnum þvottastöð á sundfötum einum.
Ómar fór í gegnum þvottastöð á sundfötum einum. mbl.is/Elvar Gunnarsson

Bílaþvottastöðin Löður hefur verið verið með myndbandaleik í gangi þar sem milljón krónum er heitið í verðlaun fyrir skemmtilegasta myndbandið.

Keppendur um milljónina eru af báðum kynjum, á öllum aldri og afraksturinn af mjög ólíkum toga, oftast bráðskemmtilegum.

Meðal þeirra sem skiluðu inn myndbandi er hinn landsþekkkti náttúruverndarsinni og skemmtikraftur Ómar Ragnarsson sem mætir í þvottastöð Löðurs sem sérvitur furðufugl, í sundfatnaði einum klæða á opnum smábíl.

Í 5 stiga frosti ekur þessi sundklæddi furðukarakter Ómars í gegnum þvottastöðina, augljóslega þeirra erinda að nýta tækifærið sem sína eigin persónulegu baðferð um leið og skolað er af bílnum.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá Ómar stefna lífi og limum í bráða hættu þegar háþrýstiþvotturinn dynur á honum, Rain-X og marglitar sápugusur sprautast á hann og löðra hátt og lágt áður en sjálfir þvottaburstarnir taka til við að þvo króka og kima okkar manns.

Að endingu sést loftþrýstiþurrkari blása vatnið bæði af bílnum og Ómari áður en yfir lýkur og hann veifar og kveður áhorfendur, tandurhreinn og eldhress að vanda.

mbl.is