Danskir velja Ford Mondeo fyrirtækjabíl ársins

2015 árgerðin af Ford Mondeo.
2015 árgerðin af Ford Mondeo.

Hinn splunkunýi Ford Mondeo hefur verið kjörinn fyrirtækjabíll ársins 2015 í Danmörku. Að valinu standa viðskiptasamtökin Business Danmark og dagblaðið Jyllands Posten og er þetta níunda árið sem þau standa fyrir valinu.

Í dómnefndinni sátu bílablaðamenn af Jyllands Posten, iðjuþjálfi og átta reyndir ökumenn og fulltrúar Business Danmark, sem verja stórum hluta hvers dags á vegum landsins.

Í úrslitunum hafði Mondeo sigur á Volkswagen Passat, Volvo V60 og Audi A4.

Þessum nýja Fordbíl gæti áskotnast önnur og ekki síðri viðurkenning í Danmörku á næstunni. Mondeo er nefnilega kominn í sjö bíla úrslit í kjöri dönsku bílablaðamannasamtakanna um bíl ársins 2015 í Danmörku. Niðurstaðan í því vali verður kynnt í næstu viku.

Þrátt fyrir þetta er Ford Mondeo ekki kominn á markað í Danmörku. Það gerist ekki fyrr en á fyrstu dögum nýs árs, 2015.

2015 árgerðin af Ford Mondeo.
2015 árgerðin af Ford Mondeo.
mbl.is