Ók Berlinetta á 350 km hraða á þjóðvegi

Vettel hefur örugglega ekki leiðst hraði Ferrarifáksins
Vettel hefur örugglega ekki leiðst hraði Ferrarifáksins

Sebastian Vettel, fjórfaldur heimsmeistari ökumanna í formúlu-1, er annálaður fyrir mikinn hraða. Sá hraðakstur á sér stað innan rammgerðra öryggisgirðinga á kappakstursbrautum.

Í síðustu viku fór hann hins vegar óvenju geyst á venjulegum vegum í Abu Dhabi í síðustu viku. Og ók þá hraðar en hann venjulega getur á formúlubrautum.

Vettel tók Ferrari F12 Berlinetta til kostanna í Abu Dhabi og gerði sér lítið fyrir og náði 350 km/klst hraða. Laganna verðir urðu ekki á vegi hans en hann hefur svo sem alveg haft efni á að borga sekt, þótt í hærri kantinum væri. Ekki liggur fyrir hver hámarkshraði er á hraðbrautum furstadæmisins litla við Persaflóa.

Með í för var náinn vinur Vettels, þýskur blaðamaður að nafni Matthias Malmedie. Tók hann myndband í akstrinum þar sem hraðinn ógurlegi kemur fram. Myndskeiðið má skoða hér á eftir.

Ferrari F12 Berlinetta kom á götuna fyrir um tveimur árum. Undir vélarhlífinni er að finna 6,3 lítra og 730 hestafla V12-vél. Úr kyrrstöðu og á 100 km ferð kemst bíllinn á 3,1 sekúndu og til að ná 200 km ferð úr kyrrstöðu þarf aðeins 8,5 sekúndur. Topphraði bílsins er gefinn upp fyrir að vera 350 km.

Vettel hefur örugglega ekki leiðst hraði Ferrarifáksins, en hann hefur ráðið sit til að keppa fyrir Ferrari í formúlu-1 næstu þrjú árin.

mbl.is