Kínverskur rafbíll kemur á óvart

BYD e6 er kínverskur rafbíll sem fer í sölu hér …
BYD e6 er kínverskur rafbíll sem fer í sölu hér á landi innan skamms. mbl.is/Malín Brand

Síðla árs 2011 hófst almenn sala á kínverska rafbílnum BYD e6 í heimalandinu Kína. Fyrir þann tíma höfðu leigubílstjórar haft til reynslu 40 slíka bíla í bænum Shenzhen. Prófanir bílstjóranna hófust í maí árið 2010.

Ári síðar hafði flotinn samanlagt ekið um 2,8 milljónir kílómetra. Bílarnir voru í samfelldri notkun á tímabilinu því bílstjórar skiptust á að aka og voru bílarnir hlaðnir á 20-30 mínútum á hraðhleðslustöðvum. Í ljós kom að þrátt fyrir mikla notkun og sífellda hleðslu hafði ekki dregið úr drægninni og rafhlaðan enn í sömu gæðum og í upphafi tilraunarinnar. Um þetta má til dæmis lesa á vefsíðunni www.greencarreports.com.

Einn sá fyrsti í Evrópu

BYD e6 er enn ekki kominn í almenna sölu í Evrópu en í Hollandi og Bretlandi hafa nokkrir bílar verið til reynslu hjá leigubílafyrirtækjunum Rotterdam Taxi Centre og Thriev. Blaðamaður bílablaðs Morgunblaðsins var svo lánsamur að fá einn af fyrstu bílunum sem komu til Evrópu. Fyrirtækið Even mun hefja sölu á BYD e6 í mars eða apríl á næsta ári en bíllinn er hér til reynslu í nokkrar vikur, sem skýrir erlenda númeraplötuna. Að sögn Gísla Gíslasonar, framkvæmdastjóra Even er ætlunin að bjóða leigubílstjórum BYD e6 á eins konar rekstrarleigu. „Þá borga menn ákveðna upphæð á mánuði fyrir bílinn og geta skilað honum eftir umsaminn tíma og fengið annan ef þeir vilja,“ segir Gísli sem getur vel séð Reykjavík fyrir sér með „græna“ leigubíla sem ekkert menga. Sé e6 hlaðinn í hraðhleðslustöð má ná 80% hleðslu á um það bil hálftíma.

Akstur og tilfinning

Þá er það stóra spurningin hvernig það var nú að aka BYD e6. Það var ofsalega gaman! Af hverju? Jú, hann er sniðugur, meðal annars vegna þess að hann virðist nýta hleðsluna býsna vel, hann er mjög sprækur og með ljómandi gott tog. Þar sem blaðamaður býr fyrir „austan fjall“ eins og sagt er, þá gafst tækifæri til að prófa e6 á lengri leiðum við misgóðar aðstæður. Það er nú það besta – að geta prófað bílana við hinar ýmsu aðstæður. Í gríðarlegum hliðarvindi uppi á heiði stóð e6 sig eins og skriðdreki. Fyrir utan hávaðann auðvitað sem skriðdrekum fylgir. Veghljóðið í e6 er einstaklega lágt og fór lítið fyrir veðurofsanum sem fyrir utan var. Þeir kunna sem sagt að einangra, Kínverjarnir. Það er mikill kostur við rafmagnsbíl. Þó að bíllinn sé stór virkaði hann ekki eins og seglbátur undir Ingólfsfjalli en þar er einmitt mjög oft kjörið að gera prófanir í hliðarvindi. e6 kom vel út úr þeim prófunum og tók ekki á sig mikinn vind. Það er gott að stíga inn og út úr bílnum, auðvelt að setja hann í hleðslu og rýmið til fyrirmyndar í þessum fjölnotabíl.

Búnaður og almenn þægindi

Bíllinn er búinn öllu því helsta sem kröfuharðir nútímaneytendur gætu látið sér detta í hug. Og þó... Það er enginn súkkulaðibræðari (sætishitari) og símatenging virðist ekki möguleg. Þó er hægt að tengja tónlistarspilara við hljómflutningstæki bílsins. Hljómsflutningstækin eru góð, það er að segja að hljómburðurinn er góður og ekki vantar kraftinn í þetta. Útvarpsloftnetið var ekki mjög öflugt á Heiðinni við að afla helstu upplýsinga en það má líta framhjá því. Sætishitarar, miðstöðvar (einkum loftkæling) og allur sá búnaður sem er orkufrekur er ekki endilega í anda rafbíla. Þó ætti notendum slíkra eðalvagna ekki að vera ískalt en feta má einhvern veg þar á milli. Það er loftkæling í bílnum og að mínu viti er slíkt apparat í rafbílum nánast eingöngu til þess að horfa á hversu miklu rafmagni það eyðir. Það er ágætt að kveikja á loftkælingunni þegar bíllinn er kyrrstæður og sjá hvernig hún hakkar í sig orku sem annars mætti nota til að koma manni á milli staða.

Kínverski framleiðandinn, BYD, gefur upp 300 kílómetra drægni á e6. Veðurfarið í heimahögum bílsins er tiltölulega fjölbreytt, í það minnsta getur verið heitt þar og líka kalt. Þess vegna má ætla að rafhlaða e6 sé framleidd með það í huga og ætti því líka að henta hér. 300 kílómetra drægni miðast við bestu mögulegu aðstæður. Til dæmis dytti engum heilvita bílaframleiðanda að gera slíkar mælingar undir Ingólfsfjalli í 20 m/sek. Þá koma bílablaðamenn til dæmis til sögunnar og prófa bílinn við alls konar aðstæður eins og fyrr hefur komið fram. Þess vegna var undirrituð hæstánægð með að komast legginn Reykjavík-Selfoss-Reykjavík-Selfoss auk einhverra útúrdúra á einni hleðslu. Það er bara mjög gott og gefur mér töluna 220 km á hleðslunni í forhertri norðaustanátt. Svona lagað gleður mann og kætir.

Rafhlaðan er tromp framleiðandans en hún nefnist „Fe“ sem rekja má til efnissamsetningarinnar. LiFePO4 er í raun og veru innihaldslýsingin á rafhlöðunni. Liþíum, járn og fosfat eru í rafhlöðunni og öll efnin má endurvinna, sem er mikilvægt að hafa í huga út frá umhverfissjónarmiðum.

Það er skiljanlegt að e6 sé góður kostur fyrir leigubílstjóra en auðveldlega má mæla með bílnum fyrir fjölskyldufólk ef verðlagningin á bílnum verður ekki of há. Gaman væri að sjá bíl sem þennan á viðráðanlegu verði en það kemur í ljós eftir um hálft ár hvernig verðlagningin hjá Even verður. malin@mbl.is

Innanrýmið er afar bjart, látlaust og snyrtilegt að sjá.
Innanrýmið er afar bjart, látlaust og snyrtilegt að sjá. mbl.is/Malín Brand
Stafrænt mælaborðið gefur góðar upplýsingar um aksturslag.
Stafrænt mælaborðið gefur góðar upplýsingar um aksturslag. mbl.is/Malín Brand
Fjölnotabíll sem þessi er með býsna rúmgott farangursrými, eða 450 …
Fjölnotabíll sem þessi er með býsna rúmgott farangursrými, eða 450 l. mbl.is/Malín Brand
Aðgengi að skottinu er gott og auðvelt að hlaða í …
Aðgengi að skottinu er gott og auðvelt að hlaða í það varningi. mbl.is/Malín Brand
Nokkuð hátt er undir bílinn sem ætti að vera fínt …
Nokkuð hátt er undir bílinn sem ætti að vera fínt í snjó og erfiðu færi. mbl.is/Malín Brand
Mælaborð BYD e6.
Mælaborð BYD e6. mbl.is/Malín Brand
Gott pláss er aftur í.
Gott pláss er aftur í. mbl.is/Malín Brand
Ljósin gera nokkuð fyrir útlitið.
Ljósin gera nokkuð fyrir útlitið. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: