James Bond skiptir um bíl

Aston Martin verður ekki í nýrri Bond-mynd.
Aston Martin verður ekki í nýrri Bond-mynd.

Breskir áhugamenn um bíla eru með böggum hildar þessa dagana. Komið hefur nefnilega í ljós, að James Bond mun ekki brúka breskan Aston Martin bíl í nýjustu Bond-myndinni.

Aston Martin hefur verið viðriðinn James Bond meira og minna frá upphafi og því eiga Bretar erfitt með að kyngja þessum nýjustu tiðindum. Birtist hann fyrst í þriðju  007-myndinni, Goldfinger, en þá var Sean Connery í hlutverki Bond.

Í millitíðinni hefur Aston Martin, í þremur mismunandi útgáfum, verið í aðalhlutverki í um helmingi Bond-myndanna 23 sem framleiddar hafa verið. Svo sem í Thunderball, GoldenEye, Tomorrow Never Dies, Casino Royale, Skyfall, On Her Majesty's Secret Service, The Living Daylights, Die Another Day, Quantum of Solace og Diamonds Are Forever.

Kannski það hafi verið fyrirboði nýrra tíma hvernig Aston Martin DB5 var kálað undir lok nýjustu myndarinnar, Skyfall. Það var þriðja mynd núverandi Bond, Daniels Craig, en hann hefur ekið  Aston Martin í myndunum þremur sem hann hefur farið með hlutverk Bond í hingað til. Nú leggur hann þeim ágæta bíl og það virðist fara fyrir brjóstið á mörgum Bretanum.

Í stað hins eðla breska sportlega bíls mun Bond í nýju myndinni aka á Fiat 500, að því er m.a. íhaldssama breska blaðið Daily Express skýrir frá.

Það fylgir sögu að myndin nýja verði tekin upp í Rómarborg, á heimavelli Fiat. Breskir gárungar velta því fyrir sér af þessu tilefni hvað nýja myndin muni heita. Finnst þeim líklegast að niðurstaðan verði annað hvort From Fiat With Love eða Fiats are Forever.

Fiat 500 hjá umboði í Rómarborg.
Fiat 500 hjá umboði í Rómarborg. mbl.is/afp
mbl.is