Stýrishjólið skynjar áfengi

Hugmynd Agba með snjallstýrinu er að hindra ölvunarakstur.
Hugmynd Agba með snjallstýrinu er að hindra ölvunarakstur.

Breskur háskólastúdent hefur fundið upp og hannað stýrishjól sem er þeirrar náttúru að geta mælt ýmislegt í starfsemi líkamans. Meðal annars nemur það og greinir hvort áfengi sé í æðum þess sem um það heldur.

Nicole Agba útskrifaðist frá háskólanum í Coventry og hefur hlotið eftirsótt verðlaun,  Autocar-Courland, fyrir stýrið sem fylgst getur með heilsu og líkamlegu ástandi ökumanns.

Við hönnun stýrishjólsins brúkaði Agba „snjallþráðarklæði“ sem í er að finna fjölda örsmárra nema. Hver og einn þeirra mælir líffræðilega þætti eins og púls, öndunartíðni og svita.  

Hátæknistýri þetta er svo næmt, að sögn hönnuðarins, að það getur leitt heilsufarsleg vandamál ökumanns í ljós. Einnig getur það greint hvort hann sé undir áhrifum áfengis, sé æstur og reiður, þreyttur eða taugastrekktur. 

Með því að mæla efnasambönd í svita frá lófum bílstjórans áttar stýrishjólið sig á hvort áfengi sé í blóði hans. Sé það niðurstaða stýrisins getur það gripið inn í fyrir honum og drepið á vélinni og afstýrt þannig hugsanlegum slysum.

Megin hugmynd Nicole Agba með stýrinu var að koma í veg fyrir að fólk æki af stað undir áhrifum þegar það áttaði sig ekki sjálft á því að það væri enn drukkið. Gagnrýnendur segja að brögðóttir brotamenn geti einfaldlega losnað undan ægisvaldi stýrisins með því að klæðast hönskum við aksturinn.

Auk peningaverklauna upp á 7.500 pund fylgir heiðrinum sem Agba hlaut fimm mánaða starfsþjálfun hjá Jaguar Land Rover, McLaren og Peugeot. Hún er fyrsta konan sem hlýtur viðurkenninguna eftirsóttu, sem veitt eru ungu uppfinningarfólki fyrir nýjungar sínar á sviði bílgreina.

Nicole Agba er fyrsta konan sem hlýtur hin eftirsóttu Autocar-Courland …
Nicole Agba er fyrsta konan sem hlýtur hin eftirsóttu Autocar-Courland verðlaun.
mbl.is