Rafbílar frá Renault-Nissan rokseljast: Með 58% hlutdeild í rafbílamarkaði

Frá því Nissan Leaf kom á götuna í desember 2010 …
Frá því Nissan Leaf kom á götuna í desember 2010 hefur bíllinn selst í um 150.000 eintökum og er söluhæsti rafbíll heims.

Renault-Nissan-samsteypan segist eiga 58% af markaði fyrir rafbíla í heiminum, en frá því Nissan Leaf kom á götuna í desember 2010 hefur hún selt 200.000 rafbíla. Er Leaf mest seldi rafbíll sögunnar en af honum hafa um 67.000 selst í Bandaríkjunum, 46.500 í Japan og 31.000 eintök í Evrópu.

Þá þykir ljóst, að Leaf verði söluhæsti rafbíllinn í Bandaríkjunum í ár en svo virðist sem Mitsubishi Outlander-tengiltvinnbíllinn ætli að taka toppsætið í Evrópu og að Leaf verði í öðru sæti – og þar með söluhæsti rafbíllinn.

Salan á Leaf hefur aukist um 35% í Bandaríkjunum í ár, miðað við sama tímabil í fyrra, og 21 mánuð í röð hefur bíllinn sett sölumet þar í landi. Fyrir utan Leaf framleiðir samsteypan rafbílana Renault Zoe, Renault Twizy, Nissan e-NV200, Renault Kangoo ZE og Renault Fluence ZE.

Renault-Nissan fagnaði því í júlí í fyrra að hafa selt 100.000 rafbíla en sá tvöhundruðþúsundasti var seldur í nýliðnum nóvember. Í því felst að fyrirtækin hafa selt um 6.250 rafbíla á mánuði síðan. Er Leaf uppistaðan í því en í Bandaríkjunum einum hafa að meðaltali selst 3.000 eintök á mánuði af Laufinu. Enginn bíll frá Nissan kemst jafn hátt í könnunum á eigendaánægju notenda.

Í nýliðnum októbermánuði seldist Renault Zoe rafbíla mest í Evrópu og naut 31% markaðshlutdeildar. Vinsælasti Renaultinn var Zoe með 23% hlutdeild, að sögn Renault-Nissan.

Frá því Renault Kangoo ZE kom á götuna 2011 hefur Renault eitt og sér selt 51.500 rafbíla um heim allan. Árið eftir var hann útnefndur sendibíll ársins í heiminum. Nýlega afhenti Renault fimmþúsundasta Kangoo ZE en kaupandinn var franski pósturinn, La Poste. Er pósturinn stærsti bílflotarekandi í Frakklandi og fær á næstu árum 5.000 rafbíla til viðbótar frá Renault.

Fyrir utan Kangoo hefur tveggja sæta bíllinn Renault Twizy hlotið góðar viðtökur í Evrópu, en stærstu markaðir fyrir rafbíla Renault þar eru í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.

Samtals eru rafbílar frá Renault og Nissan sagðir hafa lagt að baki um fjóra milljarða mengunarlausa kílómetra, eða sem svarar 100.000 ferðum umhverfis jörðina. Það jafngildir og eldsneytissparnaði sem nemur 200 milljónum lítra en slíkt vökvamagn myndi fylla Laugardalslaugina 80 sinnum. Og síðast en ekki síst hafa með þessum akstri sparast 450 milljónir kílóa af koltvíildi sem bílar af svipaðri stærð með brunavél hefðu ella losað.

Frá áramótum og fram í fyrstu viku nóvembermánaðar seldu Renault og Nissan 66.500 rafbíla sem er 20% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.

Smám saman batnar umhverfi rafbíla í Evrópulöndum en lengst eru Bretar komnir í uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla. Þekja þær í dag sem svarar 87% hraðbrauta þar í landi. Í Bandaríkjunum er að finna 750 hraðhleðslustöðvar meðfram vegum en Nissan vinnur að því með samstarfsaðilum að fjölga þeim í 1.100 um mitt næsta ár. Í Japan er að finna næststærsta rafbílamarkað heims. Þar hafa verið settar upp 2.900 stöðvar en Nissan og þrír aðrir helstu bílsmiðir Japans hafa heitið því að þær verði orðnar 6.000 í mars á næsta ári.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina