BMW sýnir senn vetnisbíl

Auk frumgerðar vetnisbílsins mun BMW frumsýna nokkrar nýjar bílgerðir. Til …
Auk frumgerðar vetnisbílsins mun BMW frumsýna nokkrar nýjar bílgerðir. Til að mynda þennan, BMW 6 Series Gran Coupe.

BMW hefur ákveðið að fara nýjar leiðir í bílsmíði og framleiða vetnisbíl. Verður frumgerð bíls með þeirri aflrás kynntur á bílasýningunni í Detroit í Bandaríkjunum á næsta ári.

Með þessu fæst staðfestur orðrómur sem verið hefur á kreiki undanfarna mánuði þess efnis að BMW væri að hanna hreinorkubíl. 

Bíllinn verður búinn nýrri vetnisknúinni vél sem BMW hefur verið að þróa í samstarfi við Toyota. Hófu bílsmiðirnir tveir samstarf í þeim efnum í fyrra, 2013, og mun það þgar hafa skilað vetnisaflrás sem er skilvirkari en áður og jafnframt ódýrari.

Það mun stuðla að lægra verði á vetnisbílum og þar með gera þá áhugaverðari kost í augum kaupenda. Toyota frumsýndi nýverið sinn fyrsta vetnisbíl, Mirai, og nú mun BMW sigla í kjölfarið eftir áramót, en bílasýningin í Detroit hefst 12. janúar nk.

mbl.is