Fyrstu myndir af nýjum Honda

Honda NSX.
Honda NSX.

Honda hefur í dag birt fyrstu opinberu myndirnar af nýja NSX-bílnum. Hér er þó um hálfgerðar felumyndir að ræða en þeim er ætlað að kynda undir spennu fyrir nýja gripnum.

Honda NSX verður ofurtvinnbíll og kemur á götuna á næsta ári. V6-vélin verður í miðjum bílnum, beint fyrir aftan sæti ökumanns og farþega hans. Hún verður tengd afturöxli en rafmótorar framöxli. Heildarafl bílsins verður allt að 400 hestöfl.

NSX verður frumsýndur á bílasýningunni sem hefst 12. janúar næstkomandi bandarísku bílaborginni Detroit. Áður hefur hugmyndabíll að NSX verið sýndur en þeim þykir svipa nokkuð saman, honum og lokagerð bílsins.

Helsti keppinautur þessa bíls verður Audi R8. Búist er við að hann muni kosta ekki undir jafnvirði 20 milljóna króna. Það virðist ekki fæla frá því nú þegar hefur fyrsti smíðisskammtur bílsins verið seldur. Þessi nýi ofurbíll verður framleiddur í smiðju Honda í  Ohio-ríki í Bandaríkjunum. Fimm eintök munu renna af færiböndunum dag hvern. Áætlanir gera ráð fyrir að helmingur framleiðslunnar seljist í Bandaríkjunum.    

Honda NSX hefur verið í þrjú ár í þróun og segir yfirverkfræðingurinn Ted Klaus, að um sé að ræða bíl þar sem mannlegi þátturinn sé í fyrirrúmi. „Hann mun svarar vilja ökumanns,“ segir Klaus.



 

Honda NSX.
Honda NSX.
Honda NSX.
Honda NSX.
Honda NSX.
Honda NSX.
mbl.is