GM gengur illa í Evrópu

Opel Adam Rocks.
Opel Adam Rocks.

Tilraunir General Motors (GM) til sóknar á Evrópumarkaði biðu hnekki í nýliðnum nóvembermánuði. Á sama tíma og öll önnur bílamerki til samans nutu 1,4% aukningar dróst sala Opel, framvarðar  GM í Evrópu, saman um 11,9%.

GM er fallið niður í sjötta sæti á lista yfir söluhæstu bílsmiði í Evrópu það sem af er ári og er skerfur þess í bílamarkaðinum þar 6,6%. Til þess er tekið að þýski lúxusbílasmiðurinn BMW sé meir að segja kominn upp fyrir GM í sölu í álfunni.

Ólíkur er árangur einstakra bílsmiða. Þannig jók Volkswagen markaðshlutdeild sína í nóvember í 26,5%. Í öðru sæti er annar stærsti bílsmiður Evrópu, PSA Peugeot-Citroen, með 10,3% skerf, Renault með 9,7%, Ford með 6,7% og BMW með 6,9% skerf.

Í tilviku GM þykir samdrátturinn til marks um að útilokað sé að spár fyrirtækisins um að skila hagnaði í Evrópurekstrinum árið 2016 rætist. General Motors hefur tapað á starfsemi sinni í Evrópu í meira en áratug.

Bandaríska fjármáladagblaðið Wall Street Journal segir að GM eigi tvo valkosti varðandi Evrópu. Annað hvort að keppa af hörku um aukna markaðshlutdeild með nýjum módelum og fjárfestingum, en það muni þýða áframhaldandi taprekstur. Hinn kosturinn sé að draga sig út af Evrópumarkaðinum og gefast upp á áratuga löngum tilraunum til að gera sig þar gildan.


 

mbl.is