Flytja frá Sigurboganum til að spara

Við höfuðstöðvar PSA í París.
Við höfuðstöðvar PSA í París.

Franski bílsmiðurinn PSA Peugeot Citroen áformar að flytja höfuðstöðvar sínar frá fínu hverfunum við Sigurbogann í París (Arc de Triomphe )  til úthverfi í sparnaðarskyni.

Mun tækifærið við flutninginn jafnframt verða notað til að stokka upp í skipulagi fyrirtækisins. Munu aðallega stjórnendur gjalda þess í uppsögnum eða tilfærslu í starfi.

Peugeot og Citroen hafa verið í grennd Sigurbogans í hálfa öld en núverandi höfuðstöðvar hins sameinaða fyrirtækis, PSA, er við eina af fínni götum Parísar,  Avenue de le Grande Armee, um 700 metra frá boganum rammgera sem Napoleon lét reisa í tilefni hernaðarlegra sigra sinna.

PSA borgar 50 milljónir evra á ári fyrir leigu og rekstur húsnæðisins, þar sem 1500 manns starfa. Þetta húsnæði ætlar fyrirtækið að losa sig við og verða aðalskrifstofur þessa næst stærsta bílasmiðs Evrópu fluttar til úthverfisins Poissy, um 25 km vestur af París. Mun flutningurinn eiga sér stað smám saman og verða endanlega lokið 2016.


mbl.is