Ford F-150 bílsmiðja stokkuð upp

Nýr F-150 af árgerðinni 2015 á leið gegnum framleiðslulínuna í …
Nýr F-150 af árgerðinni 2015 á leið gegnum framleiðslulínuna í endurbættri smiðju Ford í Dearborn mbl.is/afp

Breytingar og nýjungar við smíði á F-150 pallbílnum, gullkálfi bandaríska bílaframleiðandans Ford, kallaði á breytingar í bílsmiðjunni í Dearborn í Michiganríki.

Áður fyrri hefði verið hægt að leyfa sér að stokka upp í bílsmiðju í rólegheitum en kröfur dagsins eru aðrar, ekki síst vegna samkeppninnar um bílkaupendur. Því var ekki um annað að ræða en ráðast í breytingarnar á túrbó-tempói - og er meðfylgjandi myndskeið dæmigert fyrir það.

Allt var rifið út og nýtt fengið í staðinn en frá því hafist var handa við hið mikla verk og því lokið, og bílsmiðjan tilbúin í rekstur á ný, liðu aðeins átta vikur.

Ford fól þúsund starfsmönnum sínum að tæta framleiðslufæriböndin og allt sem þeim fylgdu og setja upp nýja smíðis- og samsetningarlínu  í Dearborn. Allt til að hefja smíði á nýrri kynslóð F-150 pallbílsins sem er úr áli í fyrsta sinn í stað stáls. 

Meðal annars þurfti að setja upp 500 ný vélmenni í smíðislínunni, nýja plötupressu til að móta áleiningar yfirbyggingarinnar úr fjórum mismunandi álplötugerðum.  Þá var málningardeildin sömuleiðis uppfærð að tækni og aukinni vélmennanotkun. Alls kostuðu breytingarnar 359 milljónir dollara, rúmlega 45 milljarða í íslenskum krónum.

mbl.is