Ekkert spaug að gleyma lykilfjarstýringu

Það er ekkert spaug að læsa sig inni í tæknilega …
Það er ekkert spaug að læsa sig inni í tæknilega flóknum bíl sem Mazda3.

Nýsjálensk hjón við aldur máttu dúsa í bíl sínum í 13 klukkustundir eftir að hafa gleymt fjarstýrðum bíllykli utan hans en samt tekist að læsa sig inni í bílnum.

Þau Mollieanna og Brian Smith, sem eru 65 og 68 ára gömul náðu ekki augum vegfarenda meðan á hinni löngu og óvæntu vist í Mazda3-bílnum stóð. Rötuðu þau í ógöngur á versta tíma, klukkan sjö að kvöldi á degi Guy Fawkes, Englendingsins sem stóð fyrir misheppnaðri tilraun til að sprengja konung og þinghúsið í loft upp 5. nóvember 1605. Þessa dags er minnst með flugeldaskotum og sprengingum og því heyrði enginn í bílflautunni eða neyðaróp hjónanna er þau reyndu að draga athyglina að sér.

Blaðið Otago Daily Times segir að „röð ólánsatvika“, andlegt álag og skortur á upplýsingum frá bílaseljanda hafi lagst á eitt gegn Smith-hjónunum. Hann hafði ekki upplýst þau um að auk fjarstýrðu lyklanna væri handvirkur búnaður í bílnum sem þau höfðu nýverið keypt. Hann fundu þau ekki þrátt fyrir leit þótt væri undir sætisbrík. Til að gera vandann verri var handbók bílsins inni á heimilinu en ekki í geymsluhólfi sínu í bílnum.

Það var svo ekki fyrr en um klukkan 7.45 að morgni næsta dags sem herra og frú Smith sluppu úr prísundinni. Og ekki mátti miklu muna því konan var orðin meðvitundarlaus og maður hennar að komast í andnauð. Sjúkraflutningamenn sögðu að hálftíma lengri vist í bílnum hefði getað kostað þau lífið.

Smith-hjónin ákváðu að segja fjölmiðlum frá atvikinu því þau óttuðust að „annað gamalt fólk“ kynni einnig að hafa takmarkaða þekkingu á nýtækninni í bílum. „Þegar ég komst að því hversu einfalt var að losa úr læsingu reiddist ég sjálfum mér. Ég var of upptekinn af því að verða vera með fjarstýringuna til að komast út,“ hefur Otago Times eftir honum.

Við blaðið sagði talsmaður Mazda að atvik Smith-hjónanna væri það fyrsta sem vitað væri um í bransanum og skrifaðist ekki á hönnunargalla. Herra Smith hafði aðeins aðra sögu að segja; hann sagði annað fólk hafa sett sig í samband við sig eftir fréttina af atvikinu og tjáð honum af samskonar óförum sínum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina