Fær hraðamæli upp í 500

Þörf er fyrir góða straumlínulögun til að Bugatti Chiron nái …
Þörf er fyrir góða straumlínulögun til að Bugatti Chiron nái 500 km hraða.

Rauði þráðurinn í smíðastefnu fransk-þýska ofursportbílasmiðsins Bugatti er að smíða hraðskreiðasta götubíl heims. Næsti bíll úr ranni hans mun fá hraðamæli upp í 500 km/klst.

Í venjulegum fólksbílum er látið nægja að mælarnir geti sýnt um 200 km/klst þótt þeim hraða verði í raun aldrei náð á viðkomandi bíl.

Víst er að arftaka Bugatti Veyron, bíll sem nefndur er Chiron, mun varla verða ekið á topphraða, 500 km, á götum úti. Nema þá ólöglega í besta falli. Lítið er vitað um þennan áformaða bíl enn sem komið er.

Að sögn tímaritsins Automobile Magazine verður Bugatti Chiron með að minnsta kosti tveimur rafdrifnum hverfilforþjöppum í þeim tilgangi að auka afl vélarinnar. Því verður svo stýrt niður í báða öxlana fyrir tilstilli tvíkúplaðrar sjö hraða sjálfskiptingar.

Sá orðrómur er á kreiki að Chiron fái 8,0 lítra vélina úr Veyron nema hvað afl hennar verður aukið úr 1.200 hestöflum (882 kílóvöttum) í um 1.500 hestöfl (1.103 kílóvött). Mesta tog hennar verður 1.500 newtonmetrar. Fyrir tilstuðlan alls þessa afls verður Chiron hraðskreiðasti bíll heims, en það er ekki í fyrsta sinn sem Bugatti smíðar slíkan bíl. Er topphraðinn sagður verða 463,5 km/klst. Úr kyrrstöðu í hundraðið mun þessi ofurbíll þurfa innan við 2,5 sekúndur. Hermt er að Bugatti Chiron verði að líkindum kynntur til sögunnar og hleypt af stokkum á árinu 2016.

agas@mbl.is

Bugatti Chiron fær 1.500 hestafla vél.
Bugatti Chiron fær 1.500 hestafla vél.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: