Dekkin gera við sig sjálf

Naglagöt, eins og þau sem þessir naglar munu óhjákvæmilega skilja …
Naglagöt, eins og þau sem þessir naglar munu óhjákvæmilega skilja eftir, lagar dekkið sjálft strax.

Jæja, þá er óþarfi að hafa áhyggjur af því þótt dekk springi. Því nú hefur franski dekkjasmiðurinn Michelin þróað dekk sem gerir við sig sjálft. Þetta þýðir þó vonandi ekki að loka verði dekkjaverkstæðum vegna verkefnaskorts.

Hin sjálfgræðandi dekk Michelin eru búin til úr sérstakri gúmmíblöndu sem er þeirrar náttúru að þétta sjálf gat. Segir að svo hratt grói sárið, að sama og enginn loftþrýstingur tapist úr dekkinu.

Dekki þessu var hleypt af stokkum, ef svo mætti segja, á ráðstefnu sem Michelin stóð fyrir í Kína. Ávinningur af nýja dekkinu er sá að bíllinn léttist um sem svarar 30 kílóum og 80 lítrar af rými sparast þar sem þörf verður ekki lengur fyrir fimmta dekkið, tjakk og önnur áhöld til dekkjaskipta. Við þetta sparast einnig eldsneyti og flutningsgeta bíls eykst. Allt gerir þetta hvern og einn bíl á nýju dekkjunum vistvænni.

Þróunarstefna Michelin er að framfarir á einu sviði bitni ekki á öðrum kostum dekkja. Því eru sjálfgræðidekkin jafn örugg, endingargóð og sparneytin og önnur dekk frá fyrirtækinu. Þau verða fáanleg bæði fyrir fólksbíla sem vörubíla.

Í Evrópu verður Volkswagen að öllum líkindum fyrsti bílsmiðurinn til að taka nýju dekkin í notkun á völdum bílum af 2015 árgerðinni. Þau kalla ekki á neinar sérstakar ráðstafanir frá bílaframleiðendum þar sem sjálfgræðidekkin eru í sömu stærðum og breiddar og þykktarhlutföllum og önnur dekk. Allt þykir benda til að þau verði staðaldekk á fjölda bílamódela í framtíðinni.

Við þetta má svo bæta að verulegur munur er eftir velferðarstigi einstakra landa eða landsvæða hversu oft dekk eigi til að springa, að sögn framleiðslustjóra hjá Michelin fyrir Norðurlöndin. Þannig punkterar dekk að meðaltali einu sinni á hverja 75.000 ekna kílómetra í Evrópu meðan dekk springur einu sinni á hverja 3.000 kílómetra í sumum löndum í Suðaustur-Asíu.

agas@mbl.is

Gúmmíblandan í nýju Michelindekkjunum er sjálfgræðandi.
Gúmmíblandan í nýju Michelindekkjunum er sjálfgræðandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: