Stal lögreglubíl handjárnuð

AFP

Hin 27 ára gamla Roxanne Rimer var handtekin af lögreglunni í Pensylvaníu-ríki í Bandaríkjunum á dögunum fyrir að stela eyrnalokkum úr verslun. Var hún handjárnuð fyrir aftan bak og komið fyrir aftur í lögreglubílnum. Skömmu síðar ók bíllinn af stað með Rimer undir stýri.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að lögreglan telji að Rimer hafi tekist að troða sér í gegnum lúgu á skilrúminu á milli fram- og aftursætanna í bílnum  sem var ólæst. Við tók eftirför af hálfu lögreglunnar sem endaði með því að konan ók út af veginum. Tókst henni að stýra bílnum um 16 kílómetra leið með hnjánum á um 130 kílmetra hraða á klukkustund.

Rimer hefur í kjölfarið verið ákærð fyrir að stela lögreglubílnum til viðbótar við þjófnaðinn á eyrnalokkunum. Eftirförin náðist á eftirlitsmyndavél annars lögreglubíls. Haft er eftir lögfræðingi Rimers að hún hafi ekki ætlað að valda neinum skaða.

mbl.is