Mannlaus bíll sló kappakstursbíl við

Sjálfakandi Audi sló kappakstursbíl við og munaði ekki um hröðun …
Sjálfakandi Audi sló kappakstursbíl við og munaði ekki um hröðun í á þriðja hundrað km/klst þegar brautin leyfði.

Til eru þeir sem telja að í framtíðinni - jafnvel ekki svo fjarlægri - verði lítil ef ekki engin þörf fyrir ökumenn; bílar verði sjálfakandi og skili róbótar hans betra verki en hin mannlega hönd.

Og miðað við nýjustu fregnir gæti svo farið að önnur stétt manna verði atvinnulaus í framtíðinni. Ekki bara leigubílstjórar heldur og kappakstursmenn! Það gefa tilraunir vísindamanna við Stanford háskólann í Kaliforníu til kynna.

Við sjálfsaksturstilraunir á sókndjörfum Audi TTS á kappakstursbrautinni Thunderhill Raceway Park í norðurhluta Kaliforníuríkis á dögunum var vélmennið það skilvirkt, að tölvuforritin skiluðu bílnum hraðar á hringnum en kappakstursmaður gerði. Var Audi-inn 0,4 sekúndum fljótari með hringinn en brautareigandinn David Vodden sem er kappakstursmaður í tómstundum og bandarískur meistari í GT-keppni.

Tilgangur reynsluakstursins var þó ekki í sjálfu sér að slá met heldur vildu vísindamennirnir kanna aksturslag kappakstursmanna til að skilja betur undirstöður öruggs aksturs.

mbl.is