Lestin betri en bíllinn

Það mun vera heilsusamlegra að taka strætó eða lest en …
Það mun vera heilsusamlegra að taka strætó eða lest en aka sjálfur til vinnu. mbl.is/epa

Vísindamenn segja, að það sé heilsusamlegra að fara til vinnu með almenningssamgöngum en að aka sjálfur. Sér í lagi séu járnbrautarlestar betri en bílar til slíkra ferða.

Rannsóknir vísindamanna við Austur-Anglíu háskólann í Englandi hafa leitt í ljós, að það taki bæði andlegan og líkamlegan toll af bílstjórum sem keyra 16 kílómetra eða lengra á dag. Tíminn undir stýri geti valdið kvíða, hækkun blóðsykurs, aukið á blóðfituna (kólesteról) og skert lífsánægjuna.

„Því lengur sem fólk ver til aksturs bíls úr og í vinnu því verri verður andleg vellíðan þess. Aftur á móti líður fólki mun betur eftir því sem það gengur lengra til og frá vinnu,“ segir forsprakki rannsóknanna, Adam Martin. Í samstarfi við stofnun sem fæst við fæðuráðgjöf og hreyfingu (CEDAR) voru greind gögn sem safnað hafði verið saman í 18 ár hjá tæplega 18.000 einstaklingum um ferðir þeirra úr og í vinnu.

Í ljós kom að fólk var mun glaðlyndara notfærðu það sér almenningssamgöngur til ferða úr og í vinnu, samanborið við að fara á einkabílnum. Var andleg vellíðan meiri við að taka lest, strætó eða jarðlest. „Sú niðurstaða kom okkur mest á óvart, að það sé heilsubati - aukin vellíðan - af því að brúka almenningssamgöngur,“ segir Martin við tímaritið Business Insider.

„Um orsakir þessa vitum við ekki nákvæmlega en það gæti verið að ferð í járnbrautarlest eða strætó sé afslappaðri og veiti mönnum meira næði til verka eins og lesa tölvupóstinn, hringja í vini og kunningja og undirbúa og skipuleggja daginn,“ segir Martin.

mbl.is