Malbikið spænist upp

Malbikunarframkvæmdir við Vesturlandsveg.
Malbikunarframkvæmdir við Vesturlandsveg. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Umræðan hefur farið nokkuð hátt að undanförnu um ástand malbiks á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Það er sannarlega ekki að ástæðulausu og vita það flestir sem aka bílum í borginni hversu mikil áskorun það er að sveigja framhjá holunum sem eru af ýmsum stærðum og gerðum.

Nú liggur fyrir að viðhaldi vega er verulega ábótavant, meðal annars vegna mikils niðurskurðar, en eru ástæðurnar fleiri að baki hinu slæma ástandi malbiks?

Rafn Arnar Guðjónsson, eigandi RAG Import Export og áhugamaður um umferðaröryggi, er einn þeirra sem velt hafa malbiksmálunum fyrir sér en sjálfur er hann vel kunnugur þeim aðferðum sem notaðar eru við lagningu malbiks í Þýskalandi vegna starfs síns. Hann segist sannfærður um að bæta megi vinnulag til muna, auk þess sem malbik sem boðið er upp á hér á landi sé ekki alltaf í hæsta gæðaflokki. „Malbikunarstöðvarnar bjóða upp á misgott malbik, og það er eitt vandamálið, í staðinn fyrir að nota eitt ákveðið gæðamalbik og vera ekki að bjóða upp á annað nema fyrir heimkeyrslur og slíkt. Ég efast um að besta malbikið sé notað í akbrautir,“ segir Rafn. Nánar verður fjallað um gæði malbiks sem notað er á íslenskum vegum í umfjöllun í bílablaðinu á næstu vikum.

Flutningur malbiks

Rafn segir vandann vera margþættan og að margt sé það sem sjaldnast kemur fram í umræðunni. „Það sem ég veit og allir vita sem það vilja er að vegalengdin sem farin er með malbikið í köldum vagni verður til þess að það glatar gæðum sínum. Það er hitað aftur í vélunum en þær hita takmarkað. Ef malbikið ætti að fara sjóðandi heitt niður í götuna þá ætti ekki að flytja það í vélum sem hita það ekki upp hundrað prósent aftur,“ segir Rafn.

Í svari sem blaðamanni barst frá Vegagerðinni um hitastig malbiks þegar það er sett niður kemur fram að það sé miðað við 140°C. Það er í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.

Einangrun malarvagnanna

Eftir sem áður segir Rafn að þær vélar sem notaðar eru hér á landi við malbikun séu eingöngu gerðar til að kveikja í vissum íblöndunarefnum malbiksins. „Það á ekkert skylt við að hita grjótið eða allan pakkann. Segjum að malbikið komi út úr verksmiðjunni 140°C heitt, því næst er það sett í vagn og ekið með það á staðinn, þá getur malbikið verið búið að kólna mikið á leiðinni ef um mikla vegalengd er að ræða. Síðan þegar á að fara að koma malbikinu ofan í götuna fer það í malbikunarvélina og fremst á vélunum er logi. Sá logi er ekkert að fara að hita upp malbikið eins og á að gera. Loginn mýkir olíuna sjálfa. Þetta var það sem kom í ljós þegar „Push-Off“-vagnarnir komu og síðar meir „Termo“ að þarna væri sitt hvort malbikið á ferðinni,“ segir Rafn. Hann nefnir að eftir að umræddir malarvagnar komu á markað hafi regluverkinu umhverfis malbikun verið breytt í Þýskalandi. „Nú verður þetta allt að vera í einangruðum vögnum og lágmarkshitastigið er 150°C.“

Að laga holur

Nóg er orðið af holunum í malbikinu á höfuðborgarsvæðinu og geta þær sannarlega verið varasamar, enda fjölmörg dekk sprungið og felgur beyglast eftir of náin kynni við holur bæjarins. Rafn segist óttast að „skítreddingar“ séu stundaðar óhóflega þegar laga á holurnar. „Maður hefur séð þegar tveir menn koma með ískalt malbik, moka í holuna og svo kemur valtari og valtar yfir. Stuttu seinna er þessi hola komin aftur. Í raun og veru þarf alltaf að saga holuna í burtu, þjappa undir, olíubera, setja malbik og valta. Þannig fer viðgerð fram og vissulega er það líka gert en þegar verið er að spara sést hitt miklu oftar.“ Rafn segist ekki reka minni til þess að hafa séð slíkar holur í Danmörku, Hollandi eða Þýskalandi. „Maður sér aldrei menn með skóflur að laga holu. Það yrði bara hlegið ef slíkt væri gert,“ segir hann.

Annar tækjakostur

Rafn er vissulega ekki fyllilega hlutlaus því hann hefur hagsmuna að gæta sem inn- og útflutningsaðili ýmissa vinnuvéla, þar á meðal Fliegl-vagnanna sem minnst var á hér að ofan. Fyrir vikið hefur hann innsýn í hvernig þeir virka og sjálfsagt að gefa því gaum hvaða tækjakost verið er að nota víða erlendis þó ekki sé hægt að fullyrða hvort ástand vega væri betra sé niðurskurður í viðhaldi hafður til hliðsjónar. „Ein gerðin er sérstaklega ætluð í malbik. Malbikið í þeim vögnum kemur nánast jafnheitt út út vagninum eins og það kom út úr verksmiðjunni og það er reginmunurinn. Þessir hefðbundnu vagnar sem almennt eru notaðir hér eru oftast úr áli eða stáli en eru ekki einangraðir. Um leið og malbikið kemur í þann vagn þá byrjar það að kólna,“ segir Rafn Arnar Guðjónsson hjá RAG Import Export sem gjarnan vill fá dálitla umræðu um hina ýmsu möguleika við flutning á malbiki.

Annað sjónarhorn

Malbikunarstöðin Hlaðbær - Colas hefur um langa hríð annast gatnagerð hér á landi og þar er Sigþór Sigurðsson framkvæmdastjóri. Hann bendir á þá staðreynd að veðurfar á Íslandi geti verið býsna erfitt og hafi það óhjákvæmileg áhrif þegar kemur að gatnagerð.

„Þess vegna einskorðast slitlagsframkvæmdir þar sem verið er að leggja nýtt slitlag á gamlt við mánuðina maí til september. Á Íslandi er malbik framleitt með fullkomnasta búnaði sem völ er á. Sem dæmi eru báðir stóru malbiksframleiðendurnir á höfuðborgarsvæðinu með nýlegar og mjög fullkomnar malbiksverksmiðjur,“ segir Sigþór og bætir því við að malbik sé framleitt á hitastiginu 145 til 165 °C og flutt með vögnum á verkstað. „Breitt er yfir farminn og vissulega kólnar það á leiðinni og sérstaklega ef langt er farið. Hinsvegar nota menn nú til dags sérstök íblöndunarefni eins og Sasobit-vax sem eykur þjálni efnisins verulega og gerir kleift að þjappa það í miklu lengri tíma en áður. Malbiksfyrirtæki vinna eftir ströngum gæðakröfum og undir miklu gæðaeftirliti,“ segir hann.

Mæling á hitastigi malbiks

Viðmælendurnir sem hér er rætt við, þeir Rafn og Sigþór, eru sammála um að hitastig malbiksins skipti miklu máli. Sigþór segir þó að malbikið kólni ekki eins mikið og Rafn vill meina á leiðinni frá verksmiðjunni til staðarins sem malbika á. „Hitastig er mælt alla leiðina frá framleiðslu og í gegnum malbikunarvélar og niður á götu.

Þjöppun er mæld með sérstökum mælum og eftir malbikun eru teknir borkjarnar sem sýna hve vel hefur tekist til. Við hjá Colas fullyrðum að kólnun efnis og þar með lélegri þjöppun er ekki vandamál nema í algjörum undantekningum, til dæmis þegar menn hafa lent í úrhellisrigningu eða eitthvað slíkt. Þá getur þurft að fræsa malbikið upp og leggja aftur ef gæðakröfum er ekki fullnægt,“ segir Sigþór.

Lítill markaður

Hvað tækjakost snertir segir Sigþór að bæta mætti þar úr. „Það er vissulega rétt að betra væri að nota sérhæfða malbiksflutningavagna sem halda efninu heitu eða heitara en venjulegir vagnar en markaðurinn hér á landi hefur bara ekki verið nógu stór til að það borgi sig fyrir flutningsaðila að fjárfesta í slíkum vögnum,“ segir hann. Ennfremur vill hann koma því að að við hefðbundna malbikun sé það ekki svo að vélarnar hiti malbikið upp þegar í þær er sturtað. „Hinsvegar er til aðferð sem er nokkuð notuð hér á landi og kallast Repave eða endurmalbikun. Þá er gamla yfirborðið hitað upp með gaslogum og nýja malbikinu sturtað í að framanverðu í vélina og lagt niður ofan á hitaða yfirborðið. Það er þynnra lag en venjulega og er mjög umdeilt hvort það sé nógu endingargóð aðferð.“

Handverkfæri við viðgerðir

Hér að framan var fjallað um viðgerðir á holum. Sigþór útskýrir fyrir blaðamanni hvernig staðið er að slíkum viðgerðum þegar þær fara fram að sumri til. „Malbiksviðgerðir sem fara fram á sumrin eru venjulega þannig að gamla malbikið er sagað upp eða fræst í burtu og nýju malbiki komið fyrir í holunni og síðan valtað. Það þarf alltaf að gera það með handverkfærum eðli málsins samkvæmt því holurnar eru litlar eða nokkrir fermetrar hver. Eftir sem áður er malbik alltaf flutt í sérhæfðum hitakössum við þessa vinnu og efnið því eins heitt og mögulegt er. Slíkir hitakassar henta hinsvegar ekki í massaflutningum,“ segir Sigþór. „Skítreddingarnar“ þekkist þó að vetri til og segir hann gripið til þeirra á erfiðum vetrardögum í janúar til mars. „Þá er notast við sérstakt viðgerðarmalbik sem er kalt og reynt að loka til bráðabirgða opnum holum fram á vorið þegar alvöru viðgerð getur farið fram.“

Þörf á kostnaðarsömu átaki

Það er nauðsynlegt að fjalla um „stóra malbiksmálið“ frá hinum ýmsu sjónarhornum og ljóst að allir geta verið sammála um að einhverju þarf að breyta til að bæta ástandið. „Heilt yfir er á Íslandi notast við bestu tækni, framleitt er hágæða malbik ef kúnninn biður um það og gæðaeftirlit er mjög mikið með framleiðslu og útlögn,“ segir Sigþór.

„Vandinn á Íslandi í dag og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem mesta umferðin er, er sú staðreynd að viðhald var skorið niður um 50 til 60% og því haldið þannig í 6 ár. Það jafngildir því að gera ekkert í þrjú ár. Það segir sig sjálft að þá gefur eitthvað eftir og við í bransanum höfum varað við þessu á hverju ári síðan 2010. Það þarf kostnaðarsamt átak til að laga til eftir þennan niðurskurð,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Hlaðbæ-Colas, að lokum.
malin@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: