Nýir jeppar bætast í frjósama flóruna

Kia Trailster er í raun upphækkaður Soul til utanvegaraksturs.
Kia Trailster er í raun upphækkaður Soul til utanvegaraksturs. mbl.is/afp

Markaður fyrir jeppa hefur vaxið mjög hratt undanfarna mánuði og misseri og virðist þar ekkert lát ætla verða á. Er jafnvel rætt um sprengingu í eftirspurn og hefur verðlækkun á olíu kynnt enn frekar undir. Þessari þróun svara bílaframleiðendur með því að auka jeppavalið.

Áhersla bílsmiða á jeppasmíði og aukið framboð, bæði með nýjum bílum og margskonar útgáfum af þeim sem fyrir voru, kom berlega fram á bílasýningunni í Chicago. Er þar um stærstu bílasýningu Bandaríkjanna að ræða ár hvert en henni lauk í fyrradag, sunnudag.

Þriðji hver bíll sem seldur var í Bandaríkjunum árið 2014 var jeppi, að sögn greiningafyrirtækisins Kelley Blue Book í Irvine í Kaliforníu. Jókst jeppasalan um 12% á árinu og nam rúmlega 5,5 milljónum eintaka. Vöxturinn var tvöfalt meiri en í bílsmíðinni í heild.

Og ekki er útlit fyrir annað en að eftirspurnin aukist frekar í ár, að sögn annars greiningafyrirtækis á sviði bílgreina, Toprak Consulting Group. Tæpast verður þó um tveggja stafa prósentutölu aukningu að ræða því í heildina er því spáð að bílamarkaðurinn vaxi hlutfallslega minna eftir því sem hann stækkar og nálgast 17 milljónir bíla á ári. Burtséð frá því má gera ráð fyrir að jeppasala aukist meira en sala annarra fólksbíla, segir Toprak.

Mestur vöxtur undanfarin þrjú ár hefur verið í sölu smærri jeppa, eins og til að mynda Honda CR-V. Höfðar sú bílstærð bæði til ungra fjölskyldna og barnafólks. Lágir vextir, lækkandi veðhæfiskröfur til lántakenda og nýjar útgáfur vinsælla módela, svo sem Jeep Cherokee og Subaru Outback, hafa virkað eins og olía á eftirspurnarbálið.

Verðlækkun hefur orðið á olíu frá í fyrrasumar. Þegar gallonið kostaði 3,76 dollara í júní í fyrra var hlutdeild jeppa í sölu nýrra bíla 33% en annarra minni fólksbíla 20%. Í desember sl. hafði bensíngallonið lækkað niður í 2,63 dollara og var skerfur jeppanna í sölunni þá 35% en smærri bílanna 16%, að sögn greiningafyrirtækisins Ward's AutoInfoBank.

Meðal nýjunga í Chicago má nefna Chevrolet Equinox sem uppfærður er nú í fyrsta sinn frá því hann kom fyrst á götuna árið 2010. Mesta útlitsbreytingin liggur í stærra og krómaðra framgrilli og nýjum aðalljósum. Bakkmyndavél er sömuleiðis staðalbúnaður í 2016-árgerðinni sem kemur í sölu með haustinu og ýmis nýr öryggisbúnaður bætist við valbúnað. Ný kynslóð þessa vinsæla jeppa mun síðan líta dagsins ljós síðla á næsta ári, þegar 2017-árgerðin kemur til skjalanna. Þrátt fyrir að hann eldist og hafi ekki tekið breytingum óx sala Equinox í fyrra um 2% og nam 242.242 eintökum, var fjórði söluhæsti smájeppinn, á eftir Honda CR-V, Ford Escape og Toyota RAV4.

Önnur nýjung er Kia Trail'ster-hugmyndabíllinn. Er það í raun utanvegarútgáfa af Kia Soul sem sögð er koma á markað „í næstu framtíð“. Hæð undir lægsta punkt er 2,5 sentímetrum meiri en í hefðbundnum Soul. Skartaði hann meðal annars blæjuþaki sem færist að öllu leyti aftur, grípandi vetrardekkjum frá Pirelli, rafmagnsdrifi á öllum hjólum og undir vélarhlífinni fjögurra strokka, 1,6 lítra og 185 hestafla vél.

Þriðja og síðasta nýjungin sem talin skal hér er ný kynslóð af Honda Pilot. Horfið er kassalagið og öllu straumlínulegri yfirbygging tekin við, í anda hins minni Honda CR-V. Upplýsingaskjár á mælaborði hefur stækkað í átta tommur og er með fimm usb-tengingum. Upphitað stýrishjól er valkostur svo og sætahiti í aftursætum. Undir húddinu er að finna nýja 3,5 lítra V6-vél með beinni innspýtingu og start-stopp-tækni í þágu bensínsparnaðar. Í boði eru tvenns konar skiptingar, sex eða níu hraða og bíllinn kemur annaðhvort með drif að framan eða á öllum fjórum hjólum. Með nýjum smíðisefnum er nýr Pilot 135 kílóum léttari en kynslóðin sem hann leysir af hólmi. Meðal öryggisnýjunga eru díóðuháljós sem dofna þegar umferð kemur á móti. Loks verður í Honda Pilot-búnaður sem annars vegar leiðréttir stefnu, leiti bíllinn út af akrein sinni, og hins vegar beitir hemlum greini hann yfirvofandi árekstur.

agas@mbl.is

Chevrolet Equinox af árgerðinni 2016 var kynntur til leiks í …
Chevrolet Equinox af árgerðinni 2016 var kynntur til leiks í Chicago fyrir þremur vikum. mbl.is/afp
Honda Pilot á sýningunni í Chicago fyrir þremur vikum.
Honda Pilot á sýningunni í Chicago fyrir þremur vikum. mbl.is/afp
Kia Trailster er í raun upphækkaður Soul til utanvegaraksturs.
Kia Trailster er í raun upphækkaður Soul til utanvegaraksturs. mbl.is/afp
Kia Trailster er í raun upphækkaður Soul til utanvegaraksturs.
Kia Trailster er í raun upphækkaður Soul til utanvegaraksturs. mbl.is/afp
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: