Þotubíll á brautinni í sumar

Eflaust verður sjón sögu ríkari þegar bíllinn fer sýningarferðir á …
Eflaust verður sjón sögu ríkari þegar bíllinn fer sýningarferðir á Kvartmílubrautinni í sumar. Tæki sem þetta sjást hér ekki á hverjum degi.

Í ár verður Kvartmíluklúbburinn 40 ára og af því tilefni er margt á könnunni hjá þessum lífseiga klúbb. Búið er að ákveða að haldin verði vegleg afmælissýning fyrstu vikuna í júní í Egilshöll sem verður sú stærsta frá upphafi.

Meðal tækja sem flutt verða inn í kringum sýninguna er einn hraðskreiðasti bíll veraldar, en sá kallast Fireforce 3 og er bíll knúinn þotuhreyfli. Blaðamaður Morgunblaðsins sló á þráðinn til Ingólfs Arnarsonar, formanns Kvartmíluklúbbsins, sem staddur var á Flórída.

Náði mest 540 km á klst

„Ég er búinn að vera í sambandi við Martin Hill, sem á og ekur þessum bíl, í nokkurn tíma og bíllinn mun koma hingað til lands í sumar og meðal annars taka sýningarferðir á Kvartmílubrautinni,“ sagði Ingólfur í viðtali við bílablaðið. „Þetta er hraðskreiðasti þotubíll í heiminum og metið hans er rúmar 336 mílur á klukkustund sem gerir 540 km hraða.“ Þotuhreyfillinn er af Pratt & Whitney gerð og er J60, fenginn úr Sikorsky flutningaþyrlu. Hreyfillinn skilar sprengiþrýstingi upp á meira en 5.500 pund sem jafngildir meira en 10.000 hestöflum og það er næsta víst að jafnöflugt farartæki hefur aldrei komið á íslenskt malbik. Árið 2005 setti þessi bíll heimsmet á Santa Pod kvartmílubrautinni í Bretlandi, sem stendur ennþá. Þá náði hann 336,1 mílna hraða og fór brautina á aðeins 5,7 sekúndum. „Til að stoppa bíl á þessum hraða þarf engar venjulegar bremsur heldur. Hann er með tvær kvartmílufallhlífar til að draga úr hraða og vökvabremsurnar eru tvöfaldar líka. Það verður því mikil veisla fyrir allt bílaáhugafólk að sjá þennan bíl og allt annað sem við erum með á prjónunum í sumar,“ sagði Ingólfur.

Frekari malbikunarframkvæmdir

Þótt afmælisárið verði drjúgt hjá Kvartmíluklúbbnum er ekki allt upptalið því að í ár standa miklar framkvæmdir yfir við brautina sjálfa. „Hún verður bráðum hringakstursbraut þar sem hægt verður að bjóða uppá alvöru kappakstur,“ sagði Ingólfur einnig.“ Auk þess verður klárað að breikka kvartmílubrautina sjálfa og lagt nýtt slitlag á þann hluta sem ekki hefur verið endurnýjaður.“ Framkvæmdirnar eru meðal annars tilkomnar vegna áforma um ökukennslu á brautinni sem nýtt verður þá sem kennslusvæði á daginn en keppnissvæði um helgar. Nánar verður sagt frá þeim áformum á bílasíðum Morgunblaðsins innan skamms. njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: