13 ára hvar sem er í umferð á 25 km vespum eftir 1. apríl

Eins og fram kom í fréttum RÚV á sunnudagskvöld munu á morgun, miðvikudaginn 1. apríl, taka gildi viðbætur við umferðarlög sem gera eigendum svokallaðra 25 km vespa kleift að aka á hvaða götum sem er, einnig þjóðvegum með 90 km hámarkshraða.

Fagráð um umferðaröryggi segir lagasetninguna mikla afturför og ógna öryggi landsmanna. Fyrir gildistöku laganna voru létt bifhjól í flokki 1 skilgreind sem reiðhjól og því voru engin aldursmörk fyrir stjórnendur slíkra hjóla. Nú er hinsvegar búið að setja skilyrði um lágmarksaldur og miðast hann við 13 ár. Líkt og gildir um reiðhjól er ekki gerð krafa um ökunám og ökuréttindi né heldur sérstakt próf varðandi akstur léttra bifhjóla í flokki I. Hjól í þessum flokki verða undanþegin vátryggingarskyldu þótt þau þurfi að skrá sérstaklega. Öfugt við önnur reiðhjól var sérstakt ákvæði sem bannaði að þessum hjólum væri ekið á akbraut og mátti eingöngu aka þeim á gangstígum. Sú nýjung er tekin upp að heimila akstur á léttum bifhjólum í flokki I á akbrautum óháð hámarkshraða á vegi og heimilt er eftir sem áður að vera á gangstétt, hjólastígum og gangstígum. Eftir stendur að 13 ára börn, án nokkurra réttinda, kennslu eða trygginga eru nú leyfileg hvar sem er í umferð á slíkum tækjum.

Eins og aprílgabb að mati Snigla

Að mati Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, er þessi breyting á lögunum illskiljanleg og í ósamræmi við þær athugasemdir sem samtökin og reyndar fleiri lögðu til þegar lögin voru samin. „Okkur finnst þetta vera eins og aprílgabb og er í hrópandi mótsögn við almenna skynsemi að okkar mati,“ sagði Hrönn Bjargar Harðardóttir, formaður Sniglanna. „Við lögðum til við breytingu laganna að miðað yrði við 14 ára aldur, að hjólin hefðu lágmarkstryggingu og að lágmark væri að krakkar sem nota ættu 25 km vespur þyrftu að sitja einskonar öryggisnámskeið. Þá héldum við í einfeldni okkar að verið væri að tala um götur með 30 km hámarkshraða en ekki að nefndin skyldi leyfa þetta á hvaða vegum sem er, einnig þjóðvegum með 90 km hámarkshraða,“ sagði Hrönn einnig.

Hefur áhrif á 45 km skellinöðrur

Bifhjólasamtökin óttast að með þessum lögum heyri venjulegar skellinöðrur á bláum númerum brátt sögunni til. „Hver á að fylgjast með því að innsiglin fyrir 25 km hámarkshraða verði ekki tekin úr?“ spyr Hrönn Bjargar. „Það er mjög algengt að 45 km skellinöðrur séu með stærri vélarkitt sem gera þeim kleift að ná tvöföldum leyfilegum hámarkshraða þeirra. Hver ætlar að fylgjast með að það verði ekki reyndin í þessum hópi?“ Undir þetta tekur Eyþór Örlygsson hjá Reykjavík Motor Center, umboðsaðila Piaggio-vespa á Íslandi. „Ég sem umboðsmaður Piaggio-vespa tek heilshugar undir með því sem Eva María sagði í fréttum RÚV á sunnudagskvöld. Við hjá Reykjavík Motor Center höfum alla tíð haft illan bifur á þeirri lögleysu sem var í kringum 25km/h léttu bifhjólin og tókum meðvitaða ákvörðun um að bjóða ekki upp á slík létt bifhjól frá Vespa þar sem við töldum að löggjafinn væri að vinna að betri umgjörð um þessi tæki. Í nýjum umferðarlögum er eiginlega verið að vega að bæði öryggi ökumanna þessara tækja sem og að mínu mati, 45km/h skellinöðru-markaðnum. Þar eru engar hömlur settar á notkun þessara tækja, en það alvarlegasta er að það er engin tryggingaskylda á þessum tækjum, þrátt fyrir skráningarskyldu,“ sagði Eyþór.

njall@mbl.is

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: