Honda best níunda árið í röð

Honda Jazz er áreiðanlegasti notaði bíllinn.
Honda Jazz er áreiðanlegasti notaði bíllinn.

Það gæti vel verið met útaf fyrir sig, en níunda árið í röð hefur Honda verið útnefndur sem traustasti framleiðandi notaðra bíla í Bretlandi.

Það er bílablaðið What Car? og tryggingafyrirtækisins Warranty Direct sem að baki valinu standa. Suzuki og Toyota urðu í öðru og þriðja sæti og í hóp topp 10 bílaframleiðenda komust einnig Chevrolet, Ford, Skoda, Peugeot og Fiat.

Um er að ræða niðurstöður árlegrar úttektar sem byggir á greiningu og úrvinnslu á 50.000 tryggingarsamningum vegna þriggja til átta ára gamalla bíla. Alls komu bílar frá 38 framleiðendum til skoðunar.

Niðurstaðan er áreiðanleikastuðull notaðra bíla þar sem tekið er tillit meðal annars til bilanatíðni, aldur, eknir kílómetrar og viðgerðarkostnaður; allt í flókinni formúlu, eins og þar segir. Því lægri sem stuðullinn reynist því áreiðanlegri er viðkomandi bíll.

Lúxus- og úrvalsbílar koma yfirleitt illa út vegna hás íhluta- og viðgerðarkostnaðar. Þess vegna eru framleiðendur á borð við Bentley og Porsche meðal botnsætanna á áreiðanleikastuðlinum. Að sögn Warranty Direct, biluðu 93% Bentley á bókum þess árlega og því er eðalsmiðurinn minnst áreiðanlegi breski bílsmiðurinn á lista þess.

Í heildina eru tveir áreiðanlegustu bílarnir Honda Jazz og Mitsubishi Lancer. Minnst treystandi er Audi RS6 og dýrastur í viðgerðum Subaru Impreza en eigendur slíks bíls þurfa að meðaltali að borga 1635,70 pund á ári, jafnvirði 332 þúsunda króna, í viðgerðir.

 

mbl.is