Öryggi vega rætt í Reykjavík

Um fimmtíu fulltrúar EuroRAP frá ýmsum löndum komu á aðalfundinn …
Um fimmtíu fulltrúar EuroRAP frá ýmsum löndum komu á aðalfundinn sem haldinn var á Grand hótel í Reykjavík í síðustu viku. Ljósmynd/FÍB

Býsna stór fundur EuroRAP (European Road Assessment Programme) var haldinn hér á landi í síðustu viku og sóttu hann um fimmtíu sérfræðingar um öryggi vega.

Þeir eru frá hinum ýmsu löndum Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi og eru fulltrúar EuroRAP í sínu heimalandi. Það má kalla EuroRAP eins konar ráð eða stofnun, sjálfstæða stofnun, sem varð til árið 1999 í kringum hugmyndir manna um öryggisskoðanir á vegum og greiningu á mögulegum slysstöðum og möguleika á úrbótum til að draga úr slysahættu.

Banaslys óásættanleg

Meginmarkmið EuroRAP er að stuðla að öruggari vegum í Evrópu og þar með lægri slysatíðni hjá vegfarendum. Kjarninn í starfi EuroRAP er að banaslys í umferðinni séu með öllu óásættanleg, rétt eins og flugslys og lestarslys.

Ísland á fulltrúa hjá EuroRAP en Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) varð aðili að því fyrir rúmum áratug.

Eins og fram kom á fundinum hefur mælanlegur árangur náðst með starfi EuroRAP og sést það til dæmis í fækkun banaslysa í umferðinni og betri vegum. Slæmir bílstjórar eru nefnilega ekki meginvandinn, eftir því sem fram kom í erindum fundarmanna, heldur er vandamálið þríþætt: Öryggi bíla, öryggi vega og svo ökumennirnir sjálfir.

Umferðarslys heilbrigðisvandi

EuroRAP styður verkefni Sameinuðu þjóðanna, Decade of Action for Road Safety, og lýkur því verkefni árið 2020. Alls taka um 100 lönd þátt en SÞ hafa skilgreint alvarleg umferðarslys sem stórt heilbrigðisvandamál sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar, bæði efnahags- og félagslega.

Athygli þeirra er vinna að bættu öryggi vega hefur síðustu ár beinst í auknum mæli að þróunarríkjum „þar sem umferðarslysaváin er svo alvarleg að hún hreinlega hindrar þróun samfélaga og þjóða í átt til betri lífskjara og lífsgæða. Stjórnvöld margra þróunarríkja hafa þegar áttað sig á vandanum, þeirra á meðal hin indversku og kínversku sem nú styðja dyggilega við vegaöryggisverkefni,“ segir á vef FÍB, www.fib.is, en þar er greinargóðar umfjallanir um fundinn og tengd málefni að finna.

Íslenskir vegir verðir athygli

Á sumardaginn fyrsta fóru gestir fundarins í dálitla vettvangsferð um Reykjanesið og var ekki annað á þeim gestum sem blaðamaður talaði við að heyra en að þeir væru býsna spenntir fyrir holóttum vegum borgarinnar og nágrennis. Það er sannarlega í mörg horn að líta en rétt eins og í öðrum löndum sem aðild eiga að EuroRAP er markmiðið það sama og það er að bæta núverandi vegakerfi og gera það öruggara.

Ýmsar greinar og fræðslueefni er að finna inni á vef EuroRAP, www.eurorap.org.

malin@mbl.is

John Dawson, fyrrverandi vegamálastjóri Skotlands er stjórnarformaður EuroRAP.
John Dawson, fyrrverandi vegamálastjóri Skotlands er stjórnarformaður EuroRAP. Ljósmynd/FÍB
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: