Það er allt hægt fari það nógu hratt

Svo vel var fleytt að sumir gátu nánast speglað sig …
Svo vel var fleytt að sumir gátu nánast speglað sig í vatnsfletinum. mbl.is/Malín

Eflaust finnst einhverjum hugmyndin um að aka á vatni álíka fjarstæðukennd og hugmyndin um að ganga á vatni. Nema vatnið sé frosið, þá er lögmálunum ekki storkað með sama hætti.

Að lokinni afmælissýningu torfærunnar á Íslandi sl. laugardag fór einmitt fram fleytingakeppni á ánni við aksturssvæði Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Slík keppni gengur út á að koma farartækjum drjúgan spöl eftir á eða vatni. Í þessu tilviki var keppt á mótorhjólum, vélsleðum og torfærubílum og gáfu menn allt í botn áður en brunað var út í ána. Torfærutækin eru mörg hver vel yfir þúsund hestöfl en margar breytur eru í jöfnunni að baki hinni fullkomnu fleytingu.

Þó ekki séu mörg dæmi um eiginlega fleytingakeppni hér á landi er nokkuð ljóst að íslenskt akstursíþróttafólk hefur lengi leikið sér að vatninu með misjöfnum árangri þó. Fyrir tæpu ári setti Guðbjörn Grímsson heimsmet í fleytingum þegar hann ók á 87 kílómetra hraða eftir rúmlega 300 metra vatnsfleti árinnar.

Áhorfendur skemmtu sér konunglega á laugardaginn, rétt eins og keppendur sjálfir, enda fundið upp á ýmsu til að kæta mannskapinn. Einn fór á fljúgandi ferð á vélsleða á nærbrókinni einni saman og annar á jeppa. Enn annar flaug framyfir sig af mótorhjóli með miklum tilþrifum og aðstoðuðu hann þrír við að finna hjólið á ný á botni árinnar. Vélarhlífar losnuðu og að keppni lokinni var án efa eitt og annað laust í tækjunum sem átti að vera fast. Sennilega hitnuðu vissir hlutir líka um of á meðan aðrir kólnuðu heldur mikið. En skemmtilegt var það og ekki spurning að vel má koma hinum ýmsu tækjum yfir vatnsflötinn sé hraðinn nægur og viljinn nógu mikill! malin@mbl.is

Árangurinn var með æði fjölbreyttu móti og rauk úr hinum …
Árangurinn var með æði fjölbreyttu móti og rauk úr hinum ýmsu hlutum.
Allir með hjálma en ekki voru allir í fötum enda …
Allir með hjálma en ekki voru allir í fötum enda svalir piltar á ferð. mbl.is/Malín
Þetta mótorhjól varð raunar viðskila við ökumanninn skömmu síðar.
Þetta mótorhjól varð raunar viðskila við ökumanninn skömmu síðar. mbl.is/Malín
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: