Byltingin er í tölvunum

Auðunn Gunnarsson fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli Bifreiðaverkstæðis …
Auðunn Gunnarsson fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli Bifreiðaverkstæðis Kópavogs. Hér er kappinn með samstarfsfólkinu sínu. mbl.is/Árni Sæberg

Auðunn Gunnarsson bifvélavirkjameistari hefur fengist við fag sitt svo lengi sem hann man eftir sér og fyrirtæki hans, Bifvélaverkstæði Kópavogs, fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli. Og það er nóg að gera hjá kappanum.

Tveggja ára farinn að gera við

„Ég er náttúrlega búinn að vera að gera við síðan ég var 14 ára, þegar ég byrjaði í skellinöðrunum,“ segir Auðunn þegar hann gefur sér stund frá önnum dagsins til að tylla sér með blaðamanni. Sé að gáð má reyndar rekja söguna enn lengra aftur. Eiginkona Auðuns, Sólbjörg Linda Reynisdóttir, minnir hann á að hann hafi ekki verið nema tveggja ára þegar fyrsti vísir að framtíðarfaginu sýndi sig. „Alveg rétt,“ samsinnir Auðunn. „Þegar ég var tveggja ára fékk ég rauðan dúkkuvagn að gjöf og dundaði mér við að taka dekkin undan honum og setja á aftur. Þannig byrjaði það.“

Það er víst óhætt að segja að snemma beygist krókurinn!

Auðunn lærði svo bifvélavirkjun hjá Lykli á Reyðarfirði og kláraði námið hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað. Hann rak fyrirtækið Réttingar og sprautun á Reyðarfirði sumarið eftir námslok, ók vörubíl um nokkurra ára skeið, stundaði sjómennsku og sitthvað fleira áður en hann stofnaði Bílaverkstæði Kópavogs árið 1995.

Tölvurnar helsta breytingin

Þegar Auðunn lítur um öxl á tímamótunum og rifjar upp helstu breytingarnar sem orðið hafa á starfsumhverfinu síðustu 20 árin segir hann tölvuvæðingu fagsins standa upp úr. „Þetta er meira eða minna eins uppbyggt allt saman, nema hvað nú gengur allt meira eða minna út á rafmagn og tölvur. Við erum með þrjár bilana- og greinitölvur sem við stingum bara í bílana og lesum svo af hvert vandamálið er. Ef það eru gangtruflanir þá segir tölvan okkur hvort um er að ræða ónýtt háspennukefli, ónýtan sveifarásskynjara, ónýtan knastásskynjara, loftflæðiskynjara, súrefnisskynjara eða hvað sem vera skal. Ef pústið er orðið lélegt og hvarfakútarnir farnir að stíflast kemur bara melding um að hvarfakútur sé stíflaður eða ónýtur.“

Það er auðheyrt á Auðuni að í dag eru breyttir tímar hvað þetta varðar. „Hér áður fyrr var þetta þannig að maður þurfti að nota hausinn,“ bætir hann við og brosir út í annað. Þegar ég var að læra þurfti maður að hugsa um allt, en í dag sitja strákarnir á verkstæðinu hjá mér við tölvuna og „gúgla“ bara einkenni bilunarinnar ásamt bíltegundinni og fá þá á augabragði heilu síðurnar af upplýsingum um mögulegar ástæður bilunar ásamt bestu leiðunum til að laga það sem er að.“ Bílarnir hafa semsé ekki breyst nein ósköp heldur hefur tölvuvæðing starfsins verið mesta byltingin síðan 1995.

Gatnakerfið ónýtt

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ástand gatnakerfisins í Reykjavík og nágrenni er víða slæmt og margar götur sem koma afleitar undan umhleypingastömum vetri. Hvernig skyldu holóttar götur borgarinnar horfa við Auðuni, með hliðsjón af bílunum sem til hans koma?

„Það reynir náttúrlega miklu meira á ballansenda og gorma þegar göturnar eru í þessu ástandi. Það er mjög algengt í dag að til okkar komi bílar með brotna gorma og ballansendana ónýta. Hjólalegur fara þá miklu heldur í bílum í dag en var hér áður fyrr. Þetta er auðvitað bara bein afleiðing af því þegar fólk keyrir í holur og hjólabúnaðurinn fær á sig snöggt og þungt högg. Gatnakerfið í Reykjavík er náttúrlega bara ónýtt og við merkjum greinilega aukningu bilana af framangreindu tagi, og það í öllum tegundum bíla, bæði fólksbílum og jeppum. Gormarnir eru að fara í jeppunum sömuleiðis.“

Betri helmingurinn til starfa

Það er í öllu falli fínt að gera hjá Auðuni og félögum, og eins og hann segir sjálfur er hann með „sex karla á gólfinu, sjö lyftur og 580 fermetra“ undir starfsemina. Hann tekur allar gerðir bíla inn og Toyotur eru þar í miklum meirihluta. Auðunn var í samstarfi við Toyota á verkstæðinu sem hann rak áður en hann stofnaði til núverandi rekstrar og síðan þá á hann ótal fastakúnna sem koma aftur og aftur og mæla auk þess með þjónustunni hjá Auðuni og félögum. Auðuni hefur svo bæst öflugur liðsauki við reksturinn, en konan hans, Sólbjörg Linda, er tekin við skjalavinnu og öðru utanumhaldi á skrifstofunni. Ekki veitir af, segir Auðunn, enda nóg að gera í pappírsvinnu og móttöku á verkstæðinu.

„Ég sló bara til svo Auðunn væri ekki að koma heim á föstudögum með poka fullan af möppum og reikningum,“ segir Sólbjörg létt í bragði. Ekki veitir af hjálpinni enda sem fyrr segir feikinóg að gera á Bifreiðaverkstæði Kópavogs. „Það sem vel er gert spyrst fljótt út og það er jú besta auglýsingin,“ segir Auðunn Gunnarsson að endingu.

jonagnar@mbl.is

Tölvuvæðingin nær líka inn á bifreiðaverkstæðin þar sem bilanagreining fer …
Tölvuvæðingin nær líka inn á bifreiðaverkstæðin þar sem bilanagreining fer að miklu leyti fram með aðstöð tölva. mbl.is/Árni Sæberg
Bifreiðaverkstæði Kópavogs telur alls sex karla á gólfinu, sjö lyftur …
Bifreiðaverkstæði Kópavogs telur alls sex karla á gólfinu, sjö lyftur og 580 fermetra. Nóg er að gera og hefur verið í 20 ár. mbl.is/Árni Sæberg
Auðunn og félagar gera við allar gerðir bíla en Toyota …
Auðunn og félagar gera við allar gerðir bíla en Toyota hafa um árabil verið þar í miklum meirihluta, bílar sem jeppar. mbl.is/Árni Sæberg
Eiginkona Auðunns, Sólbjörg Linda, sér um skrifstofu- og pappírsvinnuna. Auðunn …
Eiginkona Auðunns, Sólbjörg Linda, sér um skrifstofu- og pappírsvinnuna. Auðunn þarf ekki að taka möppur og reikninga með sér heim lengur. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: