Lögreglan lærði af þeim fremstu

Æfingar felast t.d. í að aka á milli keilna með …
Æfingar felast t.d. í að aka á milli keilna með mislöngu millibili, aftur á bak og áfram. mbl.is/Malín Brand

Forgangsakstur, þegar lögregla ekur með bláu ljósin og jafnvel sírenurnar á, er talinn um sjö sinnum hættulegri en venjulegur akstur. Hann er aðeins notaður í neyð og aðrir í umferðinni víkja fyrir þeim sem ekur í forgangi.

Þar sem forgangsakstur er eins hættulegur og raun ber vitni hefur lögreglan þjálfað sitt fólk vandlega og einungis þeir sem lokið hafa ítarlegu námskeiði mega að jafnaði aka með forgangi.

Norðmenn í fararbroddi

Þjálfun í forgangsakstri hefur farið fram með einhverjum hætti en árið 2008 var ákveðið að stíga stórt skref til aukins öryggis þegar skipaður var starfshópur ríkislögreglustjóra sem m.a. átti að mæla fyrir um þjálfun í forgangsakstri. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar Lögregluskóla ríkisins, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúi Landssambands lögreglumanna.

„Við skipulögðum leiðbeinendanámskeið fyrir hóp lögreglumanna í samstarfi við norska lögregluháskólann,“ segir Eiríkur Hreinn Helgason, yfirlögregluþjónn hjá Lögregluskóla ríkisins og verkefnastjóri forgangsakstursþjálfunar. Leiðbeinendanámskeiðið stóð í þrjár vikur og tóku í því þátt lögreglumenn frá öllum landsfjórðungum. „Í desember það sama ár hófum við þjálfunina eftir norskri aðferðafræði, sem er þrautreynd og vel reynd í forgangsakstri þar sem öryggið er sett á oddinn.“ Norðmenn eru taldir einna fremstir í akstursþjálfun lögreglumanna og því mikill fengur í að læra af þeim.

Viðamikið verkefni

Á hverri önn hafa námskeiðin að jafnaði verið sex talsins og níu setið hvert námskeið. Blaðamaður bílablaðs Morgunblaðsins varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgjast með hluta slíks námskeiðs, nánar tiltekið 54. námskeiðsins sem jafnframt er það síðasta í þessu viðamikla forgangsakstursverkefni. Hvert námskeið stendur í fjóra daga og er stórt í sniðum, um 35% bóklegt og 65% verklegt. Þrír til fjórir lögreglubílar eru notaðir og þrír til fjórir leiðbeinendur sinna kennslu hverju sinni. „Þannig að það hefur verið dálítið fyrirtæki að halda þessu gangandi á tímum fjársveltis og kreppu. Embættið hefur staðið sig stórkostlega og embætti ríkislögreglustjóra staðið á bak við þetta og við höfum séð verulegan árangur,“ segir Eiríkur Hreinn.

Árangurinn er vel sýnilegur og sést hann meðal annars í færri slysum og óhöppum við forgangsakstur. Gerð var viðamikil greining á slysum í forgangsakstri og náði hún aftur til ársins 2002. „Af greiningunni mátti sjá að full þörf var á að hefja þjálfunina og marka öryggisstefnu. Árið 2012 var markmiðinu náð en það var að þjálfa 350 lögreglumenn, svokallaða útivinnandi lögreglumenn. Þá var talið að fleiri ættu að sækja námskeiðið og nú hafa 520 lokið því af þeim 650 lögreglumönnum sem starfandi eru. Samhliða þessu hefur forgangsakstursþjálfun verið sett inn í grunnnám lögreglumanna í lögregluskólanum,“ segir Eiríkur Hreinn.

Þó svo að þessu stóra verkefni sé nú formlega lokið er fræðslunni og þjálfuninni hvergi nærri lokið. Símenntun lögreglumanna, m.a. í forgangsakstri, heldur áfram og leiðbeinendurnir fá að sama skapi símenntun til að viðhalda færni sinni. „Við leitum enn á ný til þeirra bestu og það eru Norðmenn og koma þjálfarar frá þeim í þessum mánuði til að sinna viðhaldsmenntun þjálfara lögreglunnar með skólanum,“ segir Eiríkur Hreinn, sem er ánægður með árangurinn að baki og áhugasamur um framhaldið við þjálfun lögreglumanna í forgangsakstri.

malin@mbl.is

Hér má sjá hvernig lögreglubílum er raðað á akreinina í …
Hér má sjá hvernig lögreglubílum er raðað á akreinina í fylgdarakstri. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: