Ný kynslóð Chevrolet Camaro kynnt

Mark Reuss, einn af yfirmönnum GM, kynnir nýjustu kynslóð Chevrolet …
Mark Reuss, einn af yfirmönnum GM, kynnir nýjustu kynslóð Chevrolet Camaro. mbl.is/afp

Fyrsti fulltrúi nýrrar kynslóðar hins goðsagnakennda Chevrolet Camaro var kynntur til leiks við frumsýningu sem haldin var í eyjagarðinum Belle Isle í bílaborginni Detroit í Michiganríki fyrir helgi.

Um er að ræða frumburð sjöttu kynslóðar Camaro og þótt lengdin hafi minnkað um rúma sex sentimetra, breiddin um ríflega tvo, mesta hæð um tæpa þrjá og hjólhafið styst um eina þrjá er hann sagður kraftbetri og ekki jafn gírugur í bensínið sem fyrr.

Bíll þessi kemur á götuna síðar á árinu og mun birtast í sýningarsölum bílaumboða áður en fimmtugsafmæli hans rennur upp.

Nýi Camaroinn er byggður upp af svonefndum „Alpha“ undirvagni en á honum hvíla einnig ekki ómerkari bílar en Cadillac ATS og CTS. Og í fyrsta sinn í sögunni verða bæði Camarao og helsti keppinautur hans, Ford Mustang, smíðaðir í sama bandaríska ríkinu, Michigan.

Meira ál

Meira er notað af áli við smíðina en áður og hefur það nú eiginlega leyst stálið af hólmi í undirvagninum og fjöðrunarbúnaði. Þá hefur léttara hástyrktarstál leyst hefðbundið stál af hólmi. Alls veldur það því að nýi bíllinn er 90 kílóum léttari en 2015-árgerðin, síðasti fulltrúi fimmtu kynslóðar Camaro.

Léttari bíll þýðir hagkvæmari eldsneytisnotkun en bíllinn er sagður verða hraðskreiðari og snarpari en áður, hægja á sér hraðar og snúa hraðar. Kaupendur geta valið um þrjár vélar. Tveggja lítra 275 hestafla vél með forþjöppu verður fyrsta fjögurra strokka vélin til að birtast í Camaro í um þrjátíu ár. Hún er sögð þurfa aðeins 8 lítra á hundraðið á þjóðvegum en engu að síður koma bílnum úr kyrrstöðu í 100 km/klst ferð á undir sex sekúndum.

Einnig stendur til boða 355 hestafla V6-vél og vilji menn allra fjörugustu útgáfu bílsins fylgir honum 455 hestafla 6,2 lítra V8-vél. Með öllum þremur vélarstærðunum verður hægt að velja milli sex hraða handskiptingar og átta hraða sjálfskiptingar.

Fimmtu kynslóð Camaro var hleypt af stokkum haustið 2009 er General Motors (GM) var að komast á lappirnar aftur eftir gjaldþrot af völdum bankahruns. Nýjasta kynslóðin kemur á markað við öllu hagstæðari aðstæður. Af hálfu GM er sagt, að fimmta kynslóð Camaro hafi hleypt nýju lífi í markaðinn en því til sönnunar segir fyrirtækið 63% kaupenda hans frá árinu 2010 aldrei hafa átt slíkan bíl áður.

agas@mbl.is

Camaro hinn nýi myndaður í bak og fyrir.
Camaro hinn nýi myndaður í bak og fyrir. mbl.is/afp
Vinnustaður ökumanns í Chevrolet Camaro árgerð 2016.
Vinnustaður ökumanns í Chevrolet Camaro árgerð 2016.
Fulltrúi sjöttu kynslóðar Chevrolet Camaro er ögn minni en forverarnir.
Fulltrúi sjöttu kynslóðar Chevrolet Camaro er ögn minni en forverarnir.
Vélin öfluga í Camaro.
Vélin öfluga í Camaro.
Fulltrúi sjöttu kynslóðar Chevrolet Camaro er ögn minni en forverarnir.
Fulltrúi sjöttu kynslóðar Chevrolet Camaro er ögn minni en forverarnir.
Það ætti að fara vel um menn í þessum sætum …
Það ætti að fara vel um menn í þessum sætum í Camaro.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: