Þátturinn Kíkt í skúrinn í loftið

Meðal efnis í næsta þætti er viðtal við nokkra mótorhjólamenn …
Meðal efnis í næsta þætti er viðtal við nokkra mótorhjólamenn eins og Torfa Hjálmarsson gullsmið, en hann á meðal annars þetta fágæta Ducati mótorhjól sem þeir standa við.

Í gær fór í loftið fyrsti þátturinn í nýrri mótorþáttaröð sem kallast „Kíkt í skúrinn“ á sjónvarpsstöðinni Hringbrautinni. Þátturinn verður sýndur öll mánudagskvöld kl 20:30 og eru átta þættir í fyrstu þáttaröðinni.

„Við verðum með tvær þáttaraðir til að byrja með og eins og nafnið gefur til kynna er ég að kíkja í skúrinn hjá fólki. Hér verður engin tegundapólitík á ferðinni eða þáttur fyrir sérvitringa heldur einfaldlega alla sem hafa áhuga á einhverju með mótor,“ sagði Jóhannes Bachmann, stjórnandi þáttarins, í viðtali við Morgunblaðið. „Með öðrum orðum er ég ekki að leita eftir einhverjum sem getur sagt mér allt um drifhlutföll eða hverju tækið skilar af hestöflum út í hjól, heldur þeim sem eru með eitthvað áhugavert sem sýnir mannlega þáttinn í kringum þetta.“

Mustang og mótorhjól

Í fyrsta þættinum var talað við Þorgrím St. Árnason sem er mikill Mustangmaður og meðlimur í viðkomandi klúbb. „Hann vildi kaupa sér bíl þegar hann varð fimmtugur og það kom ekkert annað til greina en Shelby GT 500 1969. Hann var svo heppinn að hitta manninn sem hannaði bílinn og hefur farið í nokkrar ferðir að hitta menn í Bandaríkjunum með sama áhugamál,“ sagði Jóhannes um fyrsta þáttinn. Þættirnir verða alltaf tví- eða þrískiptir og við sáum líka frá 1. maí hópkeyrslu Snigla þar sem Jóhannes spjallaði við fólkið sem tók þátt. „Við erum með margt skemmtilegt í næstu þáttum eins og Steina í Svissinum og viðtöl við nokkra mótorhjólamenn sem eru að gera upp og breyta mótorhjólum. Við verðum líka með viðtal við ungan strák sem er búinn að gera upp fyrsta fornbílinn sinn 25 ára gamall. Sá bíll var eiginlega hálfgerð moldvarpa en hann gerði bílinn upp samt sem áður og naut engrar aðstoðar við það og gerði allt sjálfur. Bíllinn hans er Dodge Dart GT 1969. Við höfum áhuga á að vera með fjölbreytt efni og fara um allt land og uppá fjöll líka í jeppa- og vélsleðaferðir.“

Var dreginn í skúrinn 12 ára

En hvernig kviknaði áhugi Jóhannesar á vélknúnum ökutækjum? „Ég kynntist manni sem var í tengslum við systur mína þegar ég var unglingur, Sölva Jónssyni vélstjóra. Hann dró mig af stað í skúrinn til sín og þar var ég að aðstoða hann við að gera við Chevrolet 1954 og Duster sem hann átti. Þannig byrja ég tólf ára að djöflast í þessu.“ Jóhannes átti auðvitað nokkur mótorhjól á skellinöðruárunum, Suzuki AC50, Honda SS50 og CB 50. Fyrsta bílinn kaupir hann svo 16 ára, vélarlausa Bjöllu af Vegagerðinni. „Ég setti í hana mótor og seldi síðan og keypti í framhaldi af því Ford Capri 1971. Sá bíll var fjögurra strokka en ég breytti honum í átta gata, með 289 vél og þriggja gíra Hurst skiptingu. Seinna átti ég Javelin SST og innréttaðan átta gata sendibíl,“ sagði Jóhannes ennfremur. Jóhannes hefur unnið mikið kringum rallið, bæði sem aðstoðarmaður og við bílana sem og að markaðsmálunum. Hann leggur mikið upp úr því að vera á vel snyrtum bílum enda lærði hann það af pabba sínum sem var leigubílstjóri. „Nú er ég svo að koma áhuganum inn hjá syni mínum og við erum að dunda saman í bíl sem hann keypti 14 ára gamall, BMW E36 1991 módeli.“ Aldrei að vita nema hann birtist í þættinum líka.

njall@mbl.is

Jóhannes heimsótti fyrir þáttinn Steina í Svissinum sem er hér …
Jóhannes heimsótti fyrir þáttinn Steina í Svissinum sem er hér að lýsa einhverju skemmtilegu fyrir honum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: