Fyrirlestur um hraðhleðslu

Rafskutlur í París við hleðslustaura.
Rafskutlur í París við hleðslustaura.

Áhugi á rafbílum hefur farið vaxandi hin síðari misseri, jafnt hér á landi sem erlendis, og á það ekki síst við um þá tækni sem þarf til að hlaða rafhlöður þeirra á skömmum tíma, eða 15 til 30 mínútum.

Johan Rönning stendur fyrir tæknilegum fyrirlestri á morgun, miðvikudag, um þessi mál í húsakynnum sínum við Klettagarða og þar verður kynnt sú tækni sem fyrirtækið ABB hefur þróað fyrir DC-hraðhleðslustöðvar. Fyrirlesarar munu segja frá því hvernig rafbílar verða framleiddir á næstu árum og hvaða hleðslutækni þeir munu styðja. Einnig verður fjallað um hvernig hleðslutæki rafbílamarkaðurinn mun þurfa í framtíðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rönning.

Dæmi skoðuð frá Danmörku

Á fyrirlestrinum verða kynnt dæmi frá Danmörku um rekstur hraðhleðslustöðva og útskýrt hvernig fyrirtækin Clever og E.ON hafa þróað sín rekstrarkerfi. Þá verður farið yfir hvaða möguleikar eru í boði hjá ABB fyrir eigendur slíkra kerfa til að hámarka virði fjárfestingar sinnar. Meðal þess sem tekið verður fyrir eru þjónusta við kerfin, stuðningur við viðskiptavini og möguleg greiðslukerfi, ásamt því að fjallað verður um stöðu hraðhleðslu fyrir rafbíla í Danmörku.

Fyrirlesarar eru þeir Steven Dorresteijn frá ABB BV Hollandi og Jonas M. Kehr frá ABB Danmörku. Fram kemur að fyrirlesturinn sé einkum ætlaður hönnuðum, rafveitum, fjárfestum og ráðgjöfum sveitarfélaga.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: