Hætti smíði kassalaga vörubíla

Flutningabílar verða seint sagðir straumlínulaga.
Flutningabílar verða seint sagðir straumlínulaga.

Nýleg samþykkt Evrópusambandsins (ESB) gæti haft í för með sér að hvað úr hverju hverfi vöruflutningabílar sem eru eins og múrsteinar í laginu af þjóðvegunum. Markmiðið er að auka öryggi og skilvirkni flutningabíla.

Kveðið er á um lögun og mál flutningabíla í lögum ESB og á grundvelli þeirra. Hefur dráttarvagninn þar af leiðandi verið eins og múrsteinn í laginu og öryggi gangandi vegfarenda verið lítill gaumur gefinn, að ekki sé talað um skilvirkni loftflæðis um bílana.

Rannsóknir benda til að auka mætti sparneytni flutningabíls með rúnnaðan og öllu straumlínulagaðri framenda um allt að 10%. Ávinningurinn væri mikill því þótt þeir séu aðeins um 3% bíla á evrópskum vegum skrifast fjórðungur losunar gróðurhúsalofts í evrópska vegakerfinu á flutningabílana.

Þá þykir mega bæta hönnun bílanna til að draga úr meiðslum fólks sem fyrir þeim verður. Koma flutningabílarnir við sögu 15% allra banaslysa í umferðinni í Evrópu ár hvert með þeirri afleiðingu að um 4.200 manns bíða bana. Þessi

fjöldi er talinn geta minnkað með nýrri hönnun, m.a. með krumpusvæðum til að draga úr höggþunga.

Þing ESB hefur nú samþykkt ný lög um forskriftir flutningabíla en þau koma ekki til framkvæmda við hönnun nýrra bíla fyrr en öll ESB-löndin 28 hafa samþykkt þau. Aðildarlöndin sæta þrýstingi frá bílsmiðum sem halda því fram að nýju reglurnar muni skekkja samkeppnisstöðu þeirra.

Fulltrúi umhverfissamtakanna Transport & Environment, sem hafa aðsetur í Brussel, segja samþykktina ógna múrsteinslagaða dráttarvagninum. Hún sé einnig mikilvæg í þágu umferðaröryggis og minni mengunar vörubíla eftir tveggja áratuga stöðnun.

Verði lögin samþykkt í einstökum aðildarlöndum ESB gætu bílsmiðir bætt hönnun bílanna þegar í stað. Samkvæmt frumvarpinu sem Evrópuþingið samþykkti eiga nýjar reglur að ná til hönnunar allra flutningabíla frá og með árinu 2022.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: