Kanna viðhorf til rafbíla

Rafbíllinn Volkswagen e-Golf stendur starfsmönnum HA til boða til að …
Rafbíllinn Volkswagen e-Golf stendur starfsmönnum HA til boða til að reka erindi sín fyrir skólann þangað til í lok næstu viku.

Starfsmenn Háskólans á Akureyri geta nýtt sér rafmagnsbíl til erinda á vegum skólans næstu dagana en það er liður í viðhorfskönnun um notkun rafbíla á meðal starfsmanna hans. Verkefnið er framlag háskólans til þess að gera Akureyri að kolefnishlutlausu bæjarfélagi.

Könnun er gerð í samstarfi við Heklu hf. og stendur yfir dagana 26. maí til 5. júní. Hún verður framkvæmd af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA). Hekla lánar rafbílinn Volkswagen e-Golf og munu starfsmenn skólans geta nýtt sér hann til erinda á vegum háskólans á umræddu tímabili. Þeir sem nota bílinn munu svara nokkrum spurningum um notkun og eiginleika bílsins. Í lokin mun RHA taka saman helstu niðurstöður um viðhorf starfsmanna til rafbílanotkunar.

Í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri kemur fram að á síðasta ári hélt Eyjólfur Guðmundsson, rektor, erindi á ársþingi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Þar setti hann meðal annars fram þá tillögu að stefnt yrði að árið 2020 yrðu um 80% af eknum kílómetrum innan Eyjarfjarðarsvæðisins eknir á rafmagni. Þá hafi Akureyrarbær einnig sett sér það markmið að verða kolefnahlutlaust bæjarfélag. Háskólinn á Akureyri vilji leggja sitt af mörkum við að ná þessum markmiðum og ýta undir notkun rafbíla starfsmanna sinna.

Verkefnið sé unnið til að styðja við þróun rafvæðingar bílaflotans á Íslandi og á sama tíma kynna starfsfólk skólans fyrir notkun rafbíla. Samstarfið við Heklu geri HA kleift að minnka kolefnisspor háskólans og ná settum markmiðum hvað varðar umhverfisvitund en Háskólinn á Akureyri er handhafi Grænfánans.

mbl.is