Prófa sjálfekna Google-bíla á borgargötum

Sæti verður fyrir tvo en enginn stjórnbúnaður í endanlegum bílum …
Sæti verður fyrir tvo en enginn stjórnbúnaður í endanlegum bílum Google.

Google hefur ákveðið að afloknum prófunum á eigin athafnasvæði með sjálfekna bíla að hefja reynsluakstur bíla af því tagi í borgarumhverfi í sumar.

Google kynnti sjálfekinn bíl sinn í fyrra og hefur hann sætt reynsluakstri síðan. Kveðst bandaríski tölvurisinn nú með 25 eintök af frumgerð hans klár til reynsluaksturs við raunverulegar aðstæður. Fara prófanirnar fram í nágrenni höfuðstöðva Google í borginni Mountain View í Kaliforníuríki.

Til að reynsluökumenn geti gripið inn í aksturinn ef á þarf að halda eru Google-bílarnir búnir stýrishjóli, hröðunarfetli og bremsum. Verður hámarkshraði bílanna takmarkaður við 40 km/klst. Í fyllingu tímans og með tilkomu fjöldaframleiddra Google-bíla mun þessi stjórnbúnaður ekki verða fyrir hendi í bílunum. Í staðinn verður aðeins í þeim að finna sæti fyrir tvo, lítilsháttar farangursrými, skjá sem sýnir leiðina, starthnapp og neyðarhnapp til að stöðva bílinn ef þarf.

Búnaðurinn sem sjálfeknu Google-bílarnir styðjast við – hugbúnaður, myndavél og skynjarar – er sá sami og prófaður hefur verið í flota af Lexus RX450h jepplingum. Að sögn Google hafa þessir þróunarbílar lagt að baki minnst milljón mílna, vel á aðra milljón kílómetra, á undanförnum árum. Fara þeir senn til þróunaraksturs í öðrum borgum en Mountain View sem ætti að verða til þess að gefa Google kost á að bæta enn frekar tæknina að baki sjálfeknu bílunum.

Enn sem komið er hefur ekkert verið látið uppi hvort sjálfeknu Google-bílarnir eigi eftir að fara í raðsmíði. Hins vegar þykir þróunarakstur þeirra á sumri komanda vera stórt skref í þá átt.

agas@mbl.is

Sæti verður fyrir tvo en enginn stjórnbúnaður í endanlegum bílum …
Sæti verður fyrir tvo en enginn stjórnbúnaður í endanlegum bílum Google.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: