Heyra ekki í rafbílunum

Dagur B. Eggertsson prófar að ganga við hvítan staf sem …
Dagur B. Eggertsson prófar að ganga við hvítan staf sem blindur væri. mbl.is/Ómar

Tilkoma rafmagnsbíla í umferðinni hefur orðið þess valdandi að blint fólk og sjónskert hefur dregið úr útivist þar sem afar erfitt, ef ekki ómgöulegt, sé fyrir það að átta sig á því þegar rafbíl er ekið í átt til þeirra.

Þetta er reynslan í Noregi en samtök heyrnarskertra þar í landi hafa gagnrýnt hljóðleysi rafbíla og segja þá að óbreyttu hemil á því að sjónskertir fari fótgangandi erinda sinna.

Í nýrri rannsókn sem greiningarfyrirtækið Ipsos gerði fyrir Blindrafélag Noregs (Norges Blindeforbund) kemur fram, að 400.000 Norðmenn upplifa sig óöruggari á götum úti en fyrir tilkomu rafbíla og annarra hljóðlátra ökutækja. Þriðji hver blindur og sjónskertur segjast óöruggari í umferðinni og 15% þeirra segjast hafa dregið úr útiveru og erindgjörðum vegna rafbílanna.  
 
„Öðrum fremur styðjast blindir og sjónskertir við heyrnina til að glöggva sig í umferðinni og þegar hljóðlaus rafbíll nálgast þá er vandi á ferð. Erfiðara er að heyra í honum en bílum sem gefa frá sér vélarhljóð,“ segir Sverre Fuglerud, talsmaður blindrafélagsins.

Kemur fram í rannsókninni, að á undanförnum tveimur árum hafi fjórðungur sjónskertra komist í hann krappan og reyndar bráða lífshættu vegna rafbíla. En vandinn er ekki aðeins sjónskertra því í ljós kom einnig, að 537.000 Norðmenn með fulla og óskerta sjón hafi sömuleiðis ratað í hættulegar raunir í sambandi við umferð rafbíla á sama tímabili.

Og nú kallar félagið á eigendur rafbíla og eggjar þá til að auka á bílhljóðin. Margar gerðir rafbíla séu með búnað til að senda frá sér hljóð á hægri ferð. Með því að brúka þessi hljóð mætti koma í veg fyrir slys á fólki í umferðinni, segir fyrrnefndur Fuglerud við norska blaðið Adressa.
    
Þann 1. júlí árið 2019 taka gildi Evrópureglur sem skylda bílsmiði til að vera með hljóðgervil í bílum sínum frá og með þeim degi. Eftir það munu stafa frá bílunum hljóð svo ekki ætti að fara framhjá neinum hvort rafbíll er á ferð á götum úti eður ei. Svona tækni er þegar að finna í sumum gerðum rafbíla og boðið er upp á hana sem valbúnað í öðrum. Í öllum tilvikum eiga bílar svo búnir að gefa frá sér hljóð á hægri ferð og þegar bakkað er.

Frá þessum tíma ætti umferðaröryggi blindra og sjónskertra að taka breytingum til hins betra. Þeir ættu að heyra vel í rafbílum á ferð innanbæjar. Það skiptir miklu því rafbílavæðing er meiri og lengra á veg komin í Noregi en nokkru öðru jarðríki. Í vor var fjöldi þeirra í umferðinni kominn í 50.000 eintök. Til viðbótar bætast svo tvinnbílar sem geta gengið fyrir rafmagni eingöngu á hægri ferð og senda því engin hljóð frá sér á meðan. Vandinn hverfur með auknum hraða því þá heyrist bæði í dekkjunum og vindhljóð frá yfirbyggingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina