Ökumenn skilja ekki skiltin eins vel og þeir halda

Ný umferðaröryggisrannsókn hefur leitt í ljós að annar hver ökumaður skilur ekki algeng umferðarskilti. Engu að síður eru allflestir á því að þeir myndu standast bílpróf tækju þeir það í dag.

Það voru frönsk samtök sem láta umferðaröryggi til sín taka, Prévention Routière, sem stóðu fyrir rannsókninni. Hún leiddi í ljós að ökumenn eru ekki í takt við tímann hvað varðar þekkingu þeirra og skilning á umferðarmerkjum. Sögðust níu af hverjum tíu ekkert hafa reynt að uppfæra þekkingu sína þótt umferðarreglurnar taki breytingum reglulega.

Fulltrúi samtakanna, Thomas Le Quellec, segir í blaðinu Le Parisien að frá því umferðarreglunum var breytt stórlega árið 2006 hafi nýjar reglur um akstur í þéttbýli leitt af sér að minnsta kosti sjö ný umferðarmerki.

En það var ekki aðeins að bílstjórar flöskuðu á þeim því þeir svöruðu rangt til um hraðareglur, hvar og hvenær framúrakstur væri leyfilegur og gátu ekki svarað rétt um reglur er varða útsýni og akstur um gatnamót.

Þrátt fyrir þetta sögðust rétt rúm 70% aðspurðra sannfærð um að þau myndu standast nýtt bílpróf, yrðu þau að gangast undir það í dag. Prévention Routière segir að þó svo umferðarreglurnar taki stöðugum breytingum og vegakerfið líka telji bílstjórar sig ekkert meira hafa að læra eftir að þeir eru komnir með verklegt og bóklegt bílpróf.

Nú til dags munu 700 mismunandi – já sjöhundruð – umferðarmerki vera í notkun á frönskum vegum. Sagði fyrrnefndur Le Quellec við útvarpsstöðina France Info að aldrei væri prófað hvort ökumenn þekktu ný merki.

Pierre Chasseray hjá hagsmunfélagi bíleigenda, 40 Millions d'Automobilistes, leggur til í blaðinu Le Parisien að bílstjórum verði skylt að taka próf í bílhermi á 15 ára fresti til að uppfæra þekkingu þeirra. Ímynda megi sér að tryggingafélög kosti þessar prófanir eða ökumenn fái skattaafslátt þurfi þeir sjálfir að bera kostnaðinn.

agas@mbl.is

Umferðarmerkin eru mörg og misjafnlega skiljanleg.
Umferðarmerkin eru mörg og misjafnlega skiljanleg.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: