Costco öflugt í bílasölu

Costco-keðjan er næst stærsti bílasali Bandaríkjanna.
Costco-keðjan er næst stærsti bílasali Bandaríkjanna.

Í verslunum bandarísku verslanakeðjunnar Costco er ekki aðeins að finna matvörur og aðrar dagvörur til heimilisins. Búðirnar eru einnig umsvifamiklar í bílasölu.

Hópur neytenda er fyrir hendi sem telur óþarft að fara í bílaumboð þegar hann leitar sér að nýjum bíl. Þeir skreppa bara í Costco í hverfinu sínu. Þar losna þeir við hinar hefðbundnu tilraunir sölumanna í umboðunum til að selja þeim dýrari útgáfur eða stærri en hugur þeirra stendur til.

Í fyrra seldi Costco um 400.000 bíla af öllum gerðum og merkjum eða tvöfalt fleiri en árið 2008. Ástæðan er einföld; verslunin býður vildarvinum sínum bílana á verði sem er undir því útsöluverði sem framleiðendur mæla með. Þar er um stóran markhóp að ræða því vildarvinir keðjunnar í Bandaríkjunum eru 45 milljónir.

Costco auglýsir bílana nánast ekki neitt en þrátt fyrir það er fyrirtækið orðið næst stærsti bílasali Bandaríkjanna. Aðeins keðjan AutoNation er stærri en hún afhenti 533.000 bíla í fyrra.

„Þetta er miklu meiri fjöldi en ég hefði getað ímyndað mér,“ segir sérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu LMC Automotive. „Þetta staðfestir að allir vilja fá góð kjör en vilja ekki standa í samningsþrasi við sölumenn.“ Nýtir Costco sér að margir neytendur eru þreyttir á slíku stappi sem á sér stað í hefðbundnum bílaumboðum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: