Malbiksholunum sagt stríð á hendur

Jaguar Land Rover er að þróa varnarbúnað gegn vegarholum.
Jaguar Land Rover er að þróa varnarbúnað gegn vegarholum.

Bíll sem veit af holum í malbiki áður en hann kemur að þeim væri án efa draumabíll margra íslenskra ökumanna, eins og gatnakerfið lítur út eftir vanhöld í umhirðu þess og viðhaldi undanfarin misseri.

Þannig bíl ætlar breski bílsmiðurinn Jaguar Land Rover að smíða. Öllu heldur ætlar hann að þróa búnað er nemur holur á vegum og sendir upplýsingar um þær í miðstöðvar vegamálastofnana – sem gætu þá sent lið á vettvang til að gera við þær – og til annarra bílstjóra sem þá gætu forðast holurnar eða stillt fjöðrunarbúnað sinn til að gera yfirferðina á holusvæðum mýkri.

Óljóst er hvenær tækni þessi kemur í fólksbíla. Hún er þó það langt á veg komin að hafnar eru aksturstilraunir með búnað þennan. Víst er að hann muni gleðja margan bíleigandann því að mati Jaguar Land Rover valda holur í vegum skemmdum á bílum upp á 2,8 milljarða punda á ári, jafnvirði um 575 milljarða króna. Og það bara í Bretlandi einu og sér. Holurnar leyna yfirleitt á sér og sjást iðulega of seint til að sneiða hjá þeim. Afleiðingin getur orðið skurðir í dekkjum, skemmdir á felgum og fjöðrunarbúnaði. Og jafnvel brot á drifsköftum og öxulskemmdir.

Vonast Jaguar Land Rover til að „holuvarnakerfi“ sitt verði ekki aðeins gagnlegt til að staðsetja holur og meta hættuna af þeim og öðru varasömu á vegum heldur megi hann þróast þannig að hann vari aðra bíla við þeim líka.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: