Harleyinn hans Brandos seldur fyrir 256.000 dali

Brando reffilegur á Triump Thunderdbird 1953.
Brando reffilegur á Triump Thunderdbird 1953.

Harley Davidson FLH Electra-Glide mótorhjól af árgerð 1970 var selt hjá uppboðshúsinu Julien's Auctions í Kaliforníu.

Það væri varla í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Julien's sérhæfir sig í sölu á munum sem tengjast fræga fólkinu og mótorhjólið var í eigu kvikmyndagoðsagnarinnar Marlons Brandos.

Hjólið var splunkunýtt þegar Brando eignaðist það og ökutæki sem var mjög við hæfi leikarans enda lék frammistaða hans í kvikmyndinni The Wild One (1953) stórt hlutverk í að móta hugmyndir bandarískra kvikmyndahúsagesta um menningu mótorhjólagengja.

Að sögn Gizmag var Brando mikill mótorhjólaunnandi sem þótti fátt skemmtilegra en að fara í langa hjólatúra. Hann minntist þess með hlýhug að ferðast á hjólinu um New York árla morguns, áður en mannlífið vaknaði til lífs, í hlýju sumarnæturinnar, klæddur í gallabuxur og bol með föngulegt fljóð á aftursætinu.

Mótorhjólið sem selt var á uppboðinu var enda með 13.859 mílur á mælinum. Var hjólið slegið á 256.000 dali, jafnvirði rösklega 34 milljóna króna, og er þar með í hópi þeirra fimmtíu mótorhjóla sem hæst verð hefur fengist fyrir á uppboði.

ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: