Hátæknihjálmur sem setur markið hátt

Svona á útsýnið að vera, með litla skjái í vinstra …
Svona á útsýnið að vera, með litla skjái í vinstra og hægra horni.

Í dag þykir nánast sjálfsagt að mælaborðin í bílum séu hlaðin skjám og tæknigræjum af ýmsum toga sem létta aksturinn og bæta öryggið. Má varla gera minnstu mistök bak við stýrið öðruvísi en að viðvörunarljós blikki og segi ökumanninum að passa sig.

Mótorhjólafólk hefur ekki fengið að taka þátt í þessari byltingu og hefur þurft að láta sér nægja hjálma sem í besta falli eru með heyrnartólum sem tengja má við farsímann gegnum blátannartengingu.

Nú gæti þetta breyst, með hjálminum Intelligent Cranium iC-R. Safnað er fyrir framleiðslunni á Indiegogo og hefur farið frekar hægt af stað, en markið er sett á að afla 300.000 Bandaríkjadala til að koma hjálminum á markað.

Þegar hjálmurinn er kominn á höfuðið blasa við tveir smáir LCD-skjáir sem tengdir eru við tvær myndavélar aftan á hjálminum. Ökumaðurinn hefur þannig gott útsýni beint aftur fyrir sig. Skjáirnir sýna líka ýmiss konar skilaboð og varar hjálmurinn við ef annað ökutæki er mjög nálægt mótorhjólinu aftanverðu.

Vitaskuld er GPS-kerfi innbyggt í hjálminn og blátannarkerfi, en til að setja punktinn yfir i-ið er iC-R með sólarsellu sem safnar rafmagni meðan ekið er.

Eiga framleiðendurnir von á að geta selt hjálminn fyrir 1.600 dali út úr búð, jafnvirði ríflega 210.000 króna. ai@mbl.is

Efst á hjálminum er sólarsella sem safnar rafmagni á ferðinni.
Efst á hjálminum er sólarsella sem safnar rafmagni á ferðinni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: