Ekki láta tjaldvagninn enda úti í vegarkanti

Það er þægilegt að ferðast með tjaldvagn eða húsbíl en …
Það er þægilegt að ferðast með tjaldvagn eða húsbíl en hætturnar leynast á veginum og að mörgu þarf að huga. mbl.is/Styrmir Kári

Eigendur tjaldvagna, húsvagna og húsbíla bíða sumarsins með eftirvæntingu enda er fátt skemmtilegra en að halda af stað í ferðalag um landið, og jafnvel út í heim ef því er að skipta.

Að aka með vagn í eftirdragi eða þeysa eftir þjóðvegunum á stórum húsbíl hefur hins vegar í för með sér ákveðnar hættur sem geta komið óreyndum í opna skjöldu.

Stefán Ásgrímsson er ritstjóri miðla FÍB og hefur mikla reynslu af húsbíla- og tjaldvagnaferðalögum. Hann minnist þess með hlýhug þegar fjölskyldan endasentist um Evrópu með tjaldvagn í eftirdragi. „Þá létum við auðnu ráða för, og ef það var rigning norðan við Alpana héldum við suður, en rakleiðis norður ef byrjaði að rigna fyrir sunnan.“

Vindurinn óvinur númer eitt

Á Íslandi segir Stefán að sterkir vindar séu helsta ógnin við vagnana og húsbílana. „Algengustu mistökin sem fólk gerir eru að fylgjast ekki vel með veðurspánni, og þá sérstaklega ef ekið er á stöðum eins og undir Eyjafjöllum, í Ölfusinu og annars staðar þar sem von er á kröftugum vindum.“

Mælir Stefán með því að halda ekki af stað ef vindhraðinn fer yfir 10 m/s. Þá sé vissara að bíða eftir að vindinn lægi ellegar sé hætta á að ferðalagið endi með ósköpum.

Einnig þarf að huga vandlega að hjólabúnaðinum undir vagninum. „Oft er þessi búnaður frekar bágborinn og ekki gerður fyrir mikla og krefjandi notkun,“ segir Stefán og mælir með því að fá einhvern sem þekkir til til að líta undir vagninn og ganga úr skugga um að fjöðrunarbúnaður og hjól séu ekki farin að láta á sjá og allar legur séu vandlega smurðar.

„Til að athuga hvort hjólalegurnar eru byrjaðar að gefa sig er ágætis trikk að tjakka hjólið upp og snúa því. Ef heyrist í legunum eru þær að verða ónýtar.“

Varadekk í lengri ferðum

Oft eru dekkin undir vögnunum bæði smá og veikbyggð. Ráðleggur Stefán að hafa nóg af lofti í dekkjunum. „Ef loftþrýstingurinn er of lítill eykst núningurinn og álagið á dekkin. Iðulega er um að ræða smá dekk sem þurfa að snúast á miklum hraða og eru fljót að hitna og skemmast ef loftþrýstingurinn er ekki réttur.“

Verður líka að hafa ástand og getu vagnsins í huga þegar ferðin er skipulögð því á meðan bíllinn gæti ráðið við holótta og erfiða vegi gætu þeir reynst tjaldvagninum eða fellihýsinu ofviða. „Síðan ætti alltaf að hafa varadekk meðferðis fyrir vagninn, sérstaklega ef farið er í lengri ferðalög.“

Vitaskuld ætti að fylgja vandlega öllum leiðbeiningum framleiðanda bæði bíls og vagns. Í handbókum og skráningarskírteinum er tilgreint hversu þungar kerrur bílar megi draga og hvernig ganga eigi rétt frá öllum snúrum og krókum. Stefán segir að ef bíllinn sé ekki nægilega kraftmikill geti orðið heilmikill vandi að taka t.d. fram úr stórum bílum með kerruna í eftirdragi.

„Það gengur vel þegar ekið er á eftir trukknum í ísoginu en svo þegar kemur að því að fara fram úr er eins og orkan sé ekki til staðar og vindmótstaðan er meiri en vélin ræður við,“ segir Stefán.

Gott að æfa sig á plani

Að aka um á stórum húsbíl eða með tjaldvagn í eftirdragi er töluverð umskipti frá daglegum akstri á venjulegum fólksbíl. Segir Stefán að fólk ætti að fara varlega af stað og langbest sé ef finna megi t.d. mannlaust bílastæðaplan til að æfa aksturinn. Að bakka með vagn aftan í bílnum getur verið töluverð kúnst og óheppilegt að ætla að spreyta sig á því í fyrsta sinn þegar komið er inn á tjaldsvæði þar sem lítið svigrúm er fyrir mistök og enginn skortur á áhorfendum.

Loks leggur Stefán á það áherslu að ferðalangar temji sér að ganga vel um tjaldvagninn, fellihýsið eða húsbílinn og haldi honum hreinum og fínum. Klassísk mistök eru að loka tjaldvagni þegar tjaldið er enn blautt eftir rigningu. „Stundum er nauðsynlegt að halda strax af stað en þá verður helst að opna vagninn aftur um leið og sólin fer að skína til að þurrka tjaldið á ný. Annars er hætt við að mygla og fúkki fari að gera vart við sig og skemmi vagninn.“

ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: