Rafbíll fljótastur í himnaklifrinu

Rhys Millen ekur yfir marklínuna efst á fjallinu Pikes Peak.
Rhys Millen ekur yfir marklínuna efst á fjallinu Pikes Peak.

Tímamót urðu í kappakstrinum upp Pikes Peak-fjallið í Colorado-ríki í Bandaríkjunum í ár er rafbíll var fljótastur að klifra 20 kílómetra krókótta veginn upp á tindinn. Var þetta 93. árið sem brekkuklifrið fer fram.

Með ökumanninn Rhys Millen undir stýri 1.368 hestafla frumgerðar rafbílsins eO PP03 kláraði hann klifrið á 9:07,022 mínútum, eða á 126 km/klst meðalhraða. Bíll sem sækir afl sitt í rafhlöður hefur aldrei áður verið fyrstur upp á tindinn fræga.

Rhys Millen lét smíða PP03-bílinn fyrir sig í Lettlandi en hjartað í honum er 50kWh litíumjóna rafgeymir. Er hann með um tvöfalt meira rúmtak en til dæmis geymar rafbílsins Nissan Leaf og veitir ekki af því geymirinn beinir orku sinni til sex mótora, þriggja á hvorum öxli bílsins. Aflið mun nema sem svarar einu megavatti en tómaþungi bílsins er 1.200 kíló.

Þrátt fyrir þetta er talsvert enn í land að metið upp brekkuna góðu falli. Það hljóðar upp á 8:13,8 mínútur. Handhafi þess er franski rallmeistarinn Sebastien Loeb en metið setti hann í hittiðfyrra á 875 hestafla Peugeot 208 T16.

Er Loeb setti umrætt met bætti hann ársgamalt met hins sama Rhys Millen og nú vann keppnina á rafbíl sínum. Það hljóðaði upp á 9:46,164 mínútur og því ók Millen tæplega 40 sekúndum hraðar á rafbílnum í ár.

Brautin upp á Pikes Peak liðast eins og ormur um fjallshlíðina og eru á henni samtals 156 beygjur. Hæðarbreyting frá upphafi til enda er 4.301 metri sem svarar til rúmlega tveggja Hvannadalshnjúka eða rúmlega fjögurra Esja. Krefst því umfram allt góðrar aksturstækni því þótt það sé gott að hafa af því nóg er aflið eitt og sér ekki það sem úrslitum ræður.

Meðfylgjandi myndskeið sýnir vel við hvað ökumenn glíma upp eftir fjallinu. Á því fyrra er Rhys Millen á ferð í síðustu viku en í því seinna Sebastien Loeb 2013:

agas@mbl.is

Hér er svo Sebastien Loeb á leið upp Pikes Peak í metklifri sínu 2013:

Rhys Millen við rafbílinn klifurgóða.
Rhys Millen við rafbílinn klifurgóða.
Leiðin upp til skýjanna liðast eins og ormur utan í …
Leiðin upp til skýjanna liðast eins og ormur utan í Pikes Peak fjallinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: