Aldraðir missa prófið unnvörpum

Sjónin verður að vera í lagi til að fólk megi …
Sjónin verður að vera í lagi til að fólk megi aka bíl.

Nýjar reglur um ágæti sjónarinnar vegna ökuréttinda sem tóku gildi árið 2013 í kjölfar banaslyss í umferðinni hafa sagt til sín með afdrifaríkum afleiðingum fyrir eldra fólk.

Í það skipti beið 16 ára stúlka, Cassie McCord, bana í bænum Colchester í Essexskíri í Englandi er sjóndapur 87 ára maður ók hana niður á gangbraut. Sá hafði fallið á sjónprófi lögreglu daginn áður en hélt þó áfram skírteininu um stund vegna smugu í lögunum.

Móðir stúlkunnar barðist fyrir breytingu á þessu og herferð hennar bar á endanum árangur. Með nýjum lögum sem kennd hafa verið við Cassie, fékk stofnun sem fæst við útgáfu ökuskírteina og skrásetningarskírteina bíla aukin völd til að svipta menn ökuréttindum mun hraðar en áður.

Í millitíðinni, á rúmu ári, hefur lögreglan efnt til skyndiskoðana á vegum úti. Voru vegfarendur látnir reyna að lesa bílnúmer í tiltekinni fjarlægð. Árangurinn hefur orðið sá að 631 bílstjóri sem ekki gat lesið rétt á skiltið var sviptur ökuskírteini sínu. Hægt er að svipta menn samstundis skírteini með nýju lögunum, innan tveggja sólarhringa eða með tilkynningu í pósti.

Virði bíleigendur ekki bannið og halda áfram akstri hafa þeir gerst brotlegir við hegningarlög og eiga á hættu fangelsun og upptöku bílsins.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: